Fótbolti

„Mikilvægt í svona leikjum að skora mark snemma“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Jón Dagur í baráttunni í dag.
Jón Dagur í baráttunni í dag. vísir/Getty

Jón Dagur Þorsteinsson átti góðan leik fyrir íslenska landsliðið þegar liðið vann stórsigur á Liechtenstein í undankeppni EM í dag

Leiknum lauk með 0-7 sigri Íslands og er um að ræða stærsta sigur Íslands í mótsleik.

„Það er gott en auðvitað var þetta eitthvað sem við áttum að geta gert. Þetta var skyldusigur en við kláruðum samt vel og það er gott að geta lagt hinn leikinn til hliðar og farið með bros á vör úr þessu verkefni,“ sagði Jón Dagur um stórsigurinn.

Aron Einar gerði þrennu fyrir íslenska liðið en hann var í leikbanni gegn Bosníu. Tvö marka Arons komu eftir hornspyrnu frá Jóni Degi.

„Nei það voru kannski ekki margir sem bjuggust við því (að Aron myndi skora þrennu) en bara geggjað fyrir hann. Hann þakkaði mér fyrir stoðsendingarnar en það er bara gaman að sjá kallinn skora þrjú,“ sagði Jón Dagur.

Hann segir mikilvægt að hafa náð inn marki snemma gegn liði sem spilar jafn varnarsinnaðan fótbolta og Liechtenstein.

„Það er mjög mikilvægt í svona leikjum að ná marki snemma. Annars hefðu þeir getað byggt upp sjálfstraust. Þetta var gullfallegt mark í byrjun og gott að fá markið snemma.“

„Þetta voru auðvitað mikil vonbrigði í fyrsta leik. Menn voru búnir að bíða lengi eftir þeim leik og að fá svona skell var mjög erfitt. Það er gott að svara því svona,“ sagði Jón Dagur áður en hann var spurður að því hvort gagnrýnin eftir þann leik hafi haft áhrif á leikmenn liðsins.

„Mér sýndist allavega ekki,“ sagði Jón Dagur, sposkur á svip.

Klippa: Jón Dagur Þorsteinsson eftir sigurinn gegn Liechtenstein

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×