Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata og Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins ræddu nýja reglugerð dómsmálaráðherra, sem heimilar lögreglunni að beita rafbyssum, á Sprengisandi á Bylgjunni í dag. Kollegarnir voru að vonum ósammála um málið.
Viðbót við kylfur og gas
Björn Leví spyr í upphafi hvaða hlutverki forsætisráðherra hafi eiginlega að gegna, ef skoðanir ráðherrans skipti engu máli. Hann vísar í þá staðreynd að dómsmálaráðherra hafi ekki borið reglugerðina undir ríkisstjórn. Það hefði forsætisráðherra viljað og umboðsmaður Alþingis sagði dómsmálaráðherra hafa brotið gegn góðum stjórnsýsluháttum með háttseminni.
Sjá einnig: Forsætisráðherra ítrekar ágreining við dómsmálaráðherra um rafbyssur
„Þetta er búið að liggja lengi fyrir, að þessi ráðherra væri með þetta til skoðunar. Og þegar ekki er búið að flagga því við að hann, að þetta þurfi að ræða í ríkisstjórn og eins og hefur komið inn á þá er heimild ekki bara fyrir ráðherra heldur er heimild í reglunum fyrir ríkislögreglustjóra að taka vissar ákvarðanir, þetta er svolítið útvíkkun á því. En ég skil bæði sjónarmið. Lögreglumennirnir sem eru að vinna með þetta átta sig á því að þetta er ekki stór breyting út af því að þetta er bara eitt tól í viðbót við hliðina á gasinu og kylfunni,“ segir Vilhjálmur Árnason þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur segir að lögreglan vilji alls ekki vera vopnuð, það vilji enginn. Mæta þurfi aukinni hörku í undirheimum og rannsóknir sýni að rafbyssur séu góð lausn.
Björn Leví segir að rafbyssur séu alls ekkert millistig á milli kylfu og skotvopna.
„Þetta er í raun og veru úrræði sem er beitt fyrr af því það er talið um að beita fjarlægð. Þetta er ekki tæki sem er millistig milli þess sem núna og skotvopna og þess sem hefur verið talað um.
Hann segir að rannsóknir, sem gerðar hafa verið í Bretlandi, Noregi og Svíþjóð hafi sýnt að notkunin hafi ekki aukið öryggi.

„Fjöldi slysa breyttist sama og ekki neitt“
„Öryggistilfinning lögreglumanna jókst en fjöldi slysa breyttist sama og ekki neitt. Það eru síðan hins vegar rannsóknir sem sýna að valdbeiting aukist. Þannig að fólk verður fyrir meiri valdbeitingu af hendi lögreglunnar. Það er tvímælalaust eitthvað sem við þurfum að huga að því þegar lögreglan ákveður að beita valdi – meira heldur en áður var gert – það er augljóslega alvarlegt.“
Vilhjálmur segist hafa séð rannsóknir sem sýni að rafbyssur, eða heimild til notkunar þeirra, hafi hins vegar dregið verulega úr slysum. Hann viðurkennir að tækinu sjálfu fylgi ákveðin „valdógn“ en hann telur að það komi einmitt í veg fyrir möguleg átök vegna varnaðaráhrifa.
Hér er aðeins stiklað á stóru en hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni hér að neðan.