Foden er í æfingahópi enska landsliðsins sem á leik gegn Úkraínu síðar í dag en hann þurfti að yfirgefa hópinn til þess að gangast undir aðgerð þar sem botnlangi hans var fjarlægður. Óvíst er hversu lengi Foden verður frá en ljóst er að hann mun missa af leik Manchester City gegn Liverpool um næstu helgi.
Manchester City er í öðru sæti ensku úrvalsdeildarinnar, átta stigum á eftir Arsenal en á leik til góða.
Þá er óvíst um þátttöku Erling Braut Haaland í leiknum gegn Liverpool en norski galdramaðurinn þurfti að draga sig úr norska landsliðshópnum á dögunum vegna meiðsla á nára.
Haaland hefur skorað 42 mörk í 37 leikjum á tímabilinu fyrir City en hann ferðaðist á dögunum til Barcelona þangað sem City sendir leikmenn sína sem eru að glíma við meiðsli.
„Manchester City vinnur náið með spítala í Barcelona. Hann hefur verið þar í meðhöndlun og athugunum. Nú er hann kominn til Marbella þar sem hann verður í nokkra daga með sjúkraþjálfara frá félaginu. Það er fylgst vel með honum,“ sagði Alf Inge Haaland, faðir Erling, fyrir helgina.