Fótbolti

Tony Knapp er látinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tony Knapp hleypur hér inn á Villa Park fyrir leik með Southampton á móti Manchester United í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar.
Tony Knapp hleypur hér inn á Villa Park fyrir leik með Southampton á móti Manchester United í undanúrslitum ensku bikarkeppninnar. Getty/ V. Fowler

Knattspyrnuþjálfarinn Tony Knapp er látinn en hann varð 86 ára gamall. Íslenska karlalandsliðið í fótbolta komst á kortið undir hans stjórn á áttunda áratugnum og vann sína fyrstu sigra í undankeppnum stórmóta.

Knapp er fyrrum þjálfari íslenska karlalandsliðsins í fótbolta en hann þjálfaði liðið á tveimur mismunandi tímum. Knapp tók fyrst við íslenska liðinu árið 1974 og þjálfaði það til 1977. Hann þjálfaði íslenska landsliðið einnig frá 1984 til 1985.

Undir stjórn Knapp náði íslenska landsliðið einum merkasta sigri í sögu þessa þegar liðið vann 2-1 sigur á Austur-Þýskalandi á Laugardalsvellinum 5. júní 1975. Leikurinn var í undankeppni EM 1976 en íslenska liðið hafði náð jafntefli í útileiknum í október árið áður.

Þessi sigur í Laugardalnum fyrir tæpum 48 árum var fyrsti sigur íslenska karlalandsliðsins í undankeppni EM eða HM.

Knapp skrifaði líka sögu íslenska landsliðsins í HM því undir hans stjórn vann Ísland sinn fyrsta sigur í undankeppni HM þegar liðið vann 1-0 sigur á Norður-Írlandi 11. júní 1977. Ísland hafði tapað fyrstu tíu leikjum sínum í undankeppni HM þegar Knapp tók við.

Þegar Knapp tók aftur við landsliðinu árið 1984 þá vann liðið 1-0 sigur á Wales á Laugardalsvellinum í hans fyrsta leik með liðið. Íslenska landsliðið lék alls 33 leiki undir stjórn Knapp og vann níu þeirra.

Knapp var sjálfur leikmaður með liðum eins og Leicester, Southampton og Coventry áður en hann varð þjálfari. Knapp var miðvörður og lengst spilaði hann hjá Southampton eða alls 233 leiki frá 1961 til 1967.

Eftir að hann þjálfaði íslenska landsliðið í fyrra skiptið þá fór hann til Noregs og undir hans stjórn vann Viking liðið tvennuna árið 1979.

Hann snéri aftur til Noregs eftir að hann hætti með íslenska landsliðið í seinna skiptið og þjálfaði síðast lið Lillesand IL frá 2007 til 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×