Fótbolti

Ederson: Miklir möguleikar á því að Ancelotti þjálfi Brasilíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ederson fær kannski að verða aðalmarkvörður brasilíska landsliðsins ef Carlo Ancelotti tekur við.
Ederson fær kannski að verða aðalmarkvörður brasilíska landsliðsins ef Carlo Ancelotti tekur við. AP/David Cliff

Markvörður Manchester City vill að Real Madrid detti sem fyrst út úr Meistaradeildinni en ástæðan er þó ekki að hann vilji ekki mæta Real Madrid í keppninni.

Ederson er nú staddur í landsliðsverkefni með Brasilíu og Brasilíumenn eru mikið að velta því fyrir sér hvaða þjálfari muni taka við liðinu.

Ederson trúir því að möguleikarnir á því að Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, taki við brasilíska landsliðinu aukist verulega takist Real Madrid ekki að vinna Meistaradeildina annað árið í röð.

Það breytir þó ekki því að hinn 63 ára gamli Ancelotti er með samning við Real Madrid út næsta tímabil og brasilíska knattspyrnusambandið hefur staðfastlega neitað því að hafa náð samkomulagi við ítalska þjálfarann.

„Ég var að ræða þetta við Casemiro, Vinicius Junior og [Eder] Militao. Það eru miklir möguleikar á því að Carlo Ancelotti komi og þjálfi Brasilíu,“ sagði Ederson á blaðamannafundi brasilíska landsliðsins.

Brasilíumenn eru enn að leita að framtíðarþjálfar landsliðsins þrátt fyrir að það séu þrír mánuðir síðan að Tite hætti með liðið eftir að Brasilíumenn duttu út úr átta liða úrslitum á HM í Katar.

Tite var þjálfari brasilíska landsliðsins í sex og hálft ár.

Ederson sagði enn fremur að hann og liðsfélagar hans í landsliðinu sjái Ancelotti sem einstakan þjálfara og að allir í liðinu kunni vel við hann. Svo spillar ekki fyrir að hann hefur verið titlaóður á sínum ferli.

„Sjáið bara afrekaskrána hans. Við munum komast fljótt að því hvort hann komi hingað eða ekki,“ sagði Ederson.

„Ég vona að við fáum nýjan þjálfara sem fyrst. Það er eftirvænting hér af því að það eru of miklar vangaveltur í gangi. Verður það Brasilíumaður eða erlendur þjálfari? Við erum líka að upplifa þessa óvissu,“ sagði Ederson.

Brasilíska landsliðið hefur ekki verið með erlendan þjálfara í meira en fimmtíu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×