Erlent

Trump sagður spenntur fyrir því að vera hand­járnaður

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump er sagður ætla að setja á svið sirkús ef hann verður handtekinn.
Trump er sagður ætla að setja á svið sirkús ef hann verður handtekinn. AP/Nick Wagner

Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, er sagður vera spenntur fyrir því að birtast handjárnaður í dómsal ef svo fer að hann verður handtekinn fyrir þátt sinn í því að hafa greitt klámmyndaleikkonunni Stormy Daniels mútur.

Þetta hafa erlendir miðlar eftir heimildarmönnum úr innsta hring Trump. 

Forsetinn fyrrverandi er sagður hyggjast freista þess að snúa mögulegu dómsmáli í sirkús, meðal annars til að höfða til hörðustu stuðningsmanna sinna.

Trump sagði um helgina að hann yrði handtekinn á þriðjudag, í gær, og hvatti stuðningsmenn sína til að efna til mótmæla. Viðbúnaður var víða efldur í kjölfarið, meðal annars í New York.

Lögmenn Trump eru sagðir hafa biðlað til hans um að halda sig fjarri og birtast fyrir dómara um fjarfundabúnað. Hann ku hins vegar hafa hafnað þessum umleitunum og er meira að segja sagður hafa fagnað þeim möguleika að verða skotinn; það myndi tryggja honum sigur í forsetakosningunum 2024.

Samkvæmt New York Times hafa einstaklingar í innsta hring Trump nokkrar áhyggjur af því hvort hann geri sér raunverulega grein fyrir því hversu alvarlegt málið er. Hann virðist einblína á það að ögra yfirvöldum og höfða til stuðningsmanna sinna.

Uppátæki Trump, sem hefðu gert út um pólitíska möguleika annarra, hafa oftar en ekki orðið til þess að vekja eldmóð meðal stuðningsmanna hans og auka innstreymið í kosningasjóð viðskiptajöfursins. 

Nú hefur hann hins vegar misst stuðning meðal hluta Repúblikanaflokksins og óvíst hverju látalætin skila honum, ekki síst meðal óákveðinna.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×