Fótbolti

Fékk rautt spjald fyrir að pissa

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristian Bunino komst aldrei inn á völlinn í leik Lecco 1912 og hefði því betur notað klósettið.
Cristian Bunino komst aldrei inn á völlinn í leik Lecco 1912 og hefði því betur notað klósettið. Samsett

Cristian Bunino gat ekki haldið í sér í miðjum fótboltaleik og var rekinn í sturtu áður en hann komst inn á völlinn.

Þessi fyrrum framherji Juventus fékk rautt spjald fyrir afar óvenjulega hegðun í leik með Lecco í ítölsku C-deildinni um helgina.

Bunino var á leið inn á völlinn þegar honum varð svo mikið mál að pissa. Hann hafði greinilega ekki tíma til að hlaupa inn í klefa og pissaði því rétt fyrir utan völlinn.

Þarna var komið fram á 76. mínútu og þjálfari Lecco ætlaði að reyna að lífga upp á sóknarleikinn með því að skipta Bunino inná.

Hinn 26 ára gamli Bunino komst hins vegar aldrei inn á völlinn því dómarinn sá hann pissa og lyfti um leið rauða spjaldinu.

Luciano Foschi, þjálfara Lecco, fannst þetta vera ansi ströng refsing. „Þetta eru reglurnar og það verður að fylgja þeim. Ég var að vonast til að dómararnir sýndu heilbrigða skynsemi því hann móðgaði engan og enginn sá þetta,“ sagði Luciano Foschi.

„Ég var að vonast eftir því að þetta yrði bara gult spjald en dómarinn gerði engin mistök. Og varðandi Bunino. Hann vissi ekkert um afleiðingarnar,“ sagði Foschi.

Það var annars ekkert mark skorað í leiknum sem endaði því með markalausu jafntefli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×