Innlent

Tveir fluttir slasaðir eftir snjó­flóðið

Árni Sæberg skrifar
Viðbragðsaðilum gekk vel í dag.
Viðbragðsaðilum gekk vel í dag. Lögreglan á Norðurlandi eystra

Snjóflóð féll í fjallshlíð suður af Ólafsfirði á fyrsta tímanum í dag með þeim afleiðingum að tveir úr hópi skíðafólks slösuðust. Björgunarsveitir eru mættar á vettvang ásamt þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

Í uppfærðri tilkynningu á Facebooksíðu Lögreglunnar á Norðurlandi eystra segir að klukkan 12:27 hafi borist tilkynning um að snjóflóð hefði fallið í Brimnesdal við Ólafsfjörð, nánar tiltekið undir Kistufjalli. Upphaflega var talið að einn úr hópnum hefði fótbrotnað í snjóflóðinu.

„Um tveimur klukkustundum eftir að útkall barst komust sjúkraflutningamenn til hópsins. Kom þá í ljós að annar skíðamaður var einnig lítilsháttar slasaður. Hlúð var að hinum slösuðu og búið um þau til flutnings. Voru þau flutt niður Brimnesdalinn og þar í sjúkrabíl sem flutti þau til Akureyrar. Þyrla LHG gat ekki aðhafst á slysavettvangi vegna veðurskilyrða en hún var kominn til Ólafsfjarðar áður en flutningur á hinum slösuðu til byggða hófst,“ segir í tilkynningu.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að björgunarsveitir frá Akureyri og Siglufirði hafi verið kallaðar út. Upp úr klukkan 15 hafi þær, ásamt sjúkraflutningamönnum, verið að ljúka við að búa um manninn til flutnings niður fjallið og verkjastilla hann. Nú sé verið að vinna í því að koma manninum niður.

Þá segir hann að ekki hafi verið tilkynnt um að nokkur sé týndur í snjóflóðinu, aðeins að einn hafi slasast.

Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, segir í samtali við Vísi að aðstæður séu erfiðar vegna lágrar skýjastöðu og lélegs skyggnis á svæðinu. Því hafi nokkur tími liðið áður en þyrlusveitin lagði af stað norður á meðan staðan var metin.

Nú sé þyrlan hins vegar komin norður og hún verði til taks ef hennar verður þörf.

Fréttin hefur verið uppfærð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×