Fótbolti

Sádi-Aröbum ekki hleypt inn á HM kvenna í fótbolta þrátt fyrir gylliboð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hin bandaríska Alex Morgan var ein af þeim sem talaði gegn því að Sádarnir fengju að styrkja HM kvenna í fótbolta í ár.
Hin bandaríska Alex Morgan var ein af þeim sem talaði gegn því að Sádarnir fengju að styrkja HM kvenna í fótbolta í ár. Getty/Mikoaj Barbanell

Alþjóða knattspyrnusambandið hætti við fáránleikann og lét undan pressunni þegar sambandið ákvað að taka ekki tilboði frá Sádi-Arabíu um að vera einn af styrktaraðilum heimsmeistaramóts kvenna í fótbolta í sumar.

Gianni Infantino, forseti FIFA, gaf þetta út í gær en lokaði samt ekki um leið á það að Sádi-Arabar muni styrkja kvennafótboltann í næstu framtíð.

Það urðu mjög hörð viðbrögð við því þegar fréttist að Sádi-Arabía yrði einn af styrktaraðilunum á HM kvenna 2023 enda landið þekkt fyrir allt annað en að vilja upphefja eða hjálpa konum sínum að ná frama í sínu lífi.

Þvert á móti og aðeins fyrir nokkrum árum máttu konur ekki einu sinni koma inn á knattspyrnuvelli eða keyra sjálfar á völlinn. Konur ráða hreinlega ekki yfir lífi sínu heldur þurfa þær að lúta forsjá karlmanns.

Visit Saudi, ferðamannastofa landsins, ætlaði að auka sýnileika sinn á meðan keppninni stóð sem og vinna í breyttri ímynd og borga FIFA fyrir það væna upphæð.

Knattspyrnukonur heimsins voru sérstaklega óánægðar með þessar fréttir enda þær sjálfar réttminni einstaklingar þegar þær heimsækja Sádi-Arabíu.

Infantino bauð hins vegar upp á dæmigerða skýringu frá sér þegar kemur að því að verja lönd sem eru uppvís af ítrekuðu mannréttindabrotum.

„Það voru viðræður í gangi við Visit Saudi en við náðum ekki samkomulagi á endanum. Þetta var því stormur í vatnsglasi,“ sagði Gianni Infantino eftir að hann var endurkjörinn forseti FIFA án mótframboðs.

„FIFA eru samt samtök með 211 löndum. Það er ekkert að því að taka við styrkjum frá Sádi-Arabíu, Kína, Bandaríkjunum, Brasilíu eða Indlandi,“ sagði Infantino. Hann fór síðan í sína venjubundnu söguskýringu.

„Þegar kemur að Ástralíu þá eru þeir í viðskiptum við Sádí Arabíu á hverju ári sem eru 1,5 milljarða dollara virði. Þá er ekkert vandamál,“ sagði Infantino. Ástralía heldur HM ásamt Nýja-Sjálandi og báðir gestgjafarnir voru á móti því að Sádarnir kæmu inn.

Það má þó ekki líta fram hjá því að þetta er á réttri leið þótt hægt gangi. Í júní árið 2018 var akstursbanni kvenna aflétt og í ágúst 2019 fengu konur aukið ferða­frelsi án samþykkis karlkyns forráðamanns og rétt til að skrá hjónaband, skilnað, fæðingu og dauðsfall.

Ekki eru þetta eintómir smásigrar því að um sama leyti og eftir að akstursbanni kvenna var aflétt voru helstu baráttukonur fyrir réttindum kvenna í Sádi-Arabíu handteknar fyrir baráttu sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×