Fótbolti

„Ég get ekki valið leikmenn í hópinn sem eru ekki tilbúnir að byrja á bekknum“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Albert Guðmundsson hefur verið að gera flotta hluti með Genoa liðinu í ítölsku b-deildinni.
Albert Guðmundsson hefur verið að gera flotta hluti með Genoa liðinu í ítölsku b-deildinni. Getty/Simone Arveda

Arnar Þór Viðarsson segist hafa sett sig í samband við Albert Guðmundsson varðandi það að snúa aftur í íslenska fótboltalandsliðið en ákveðið að velja hann ekki.

Albert er ekki í landsliðshópnum sem mætir Bosníu og Liechtenstein í undankeppni EM 2024 og hefur ekki verið í landsliðinu síðan síðasta haust. Arnar Þór gagnrýndi hann þá fyrir hugarfar hans í verkefnum með landsliðinu.

Þótt Arnar Þór hafi haft samband við Albert er deila þeirra enn óleyst. Á Arnari Þór er að skilja að Albert sé ekki tilbúinn að sætta sig við að sitja á bekknum í landsliðsverkefnum.

„Ég hringdi í Albert og bauð honum að koma til baka einfaldlega vegna þess að það eru leikir í þessari undankeppni eins og öðrum undankeppnum sem öskra á hans hæfileika. En svo eru aðrir leikir þar sem við þurfum á öðrum hæfileikum að halda,“ sagði Arnar Þór í samtali við Vísi í dag.

„Ég get ekki valið leikmenn í hópinn sem eru ekki tilbúnir að byrja á bekknum þegar það á við.“

En ber mikið í milli þeirra Arnars Þórs og Alberts?

„Nei, nei. Það ber ekkert í milli og þetta eru ekki samningaviðræður eða neitt þannig. Ég sem þjálfari, og þjálfarar almennt, það ganga allir í gegnum sömu dyr og um leið og leikmenn eru tilbúnir að leggja hart að sér fyrir liðið og gera það sem það þarf og taka hagsmuni liðsins fram yfir sína eigin hagsmuni er hurðin alltaf opin,“ sagði Arnar Þór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×