Erlent

Kókaínframleiðsla jókst um þrjátíu og fimm prósent á einu ári

Samúel Karl Ólason skrifar
Covid hafði mikil en skammvinn áhrif á framleiðslu og neyslu kókaíns.
Covid hafði mikil en skammvinn áhrif á framleiðslu og neyslu kókaíns. Getty

Kókaínframleiðsla jókst um 35 prósent milli 2020 og 2021 og hefur aldrei verið meiri. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar á vegum Sameinuðu þjóðanna en þar segir að umfang kókaínsölu sé að aukast í Afríku.

Í skýrslu sem gerð var um rannsóknina kemur fram að faraldur Covid-19 hafi haft mikil áhrif á kókaínmarkaðinn. Neysla dróst saman með lokun skemmtistaða um heim allan og framleiðendur áttu þar að auki erfiðara með að dreifa fíkniefninu um heiminn vegna þeirra áhrifa sem faraldurinn hafði á samgöngur.

Áhrif Covid á kókaínmarkaðinn virðast þó hafa haft lítil áhrif til lengri tíma séð. Eins og áður segir hefur framleiðslan aldrei verið meiri og virðist sem það sama eigi við eftirspurn og neyslu á heimsvísu.

Lögregluþjónar og aðrir löggæslumenn í heiminum hafa þó lagt hald á mun meira kókaín en áður.

Stöplarnir í grafíkinni vinstra megin sína framleiðslu kókaíns. Línuritin sýna haldlagningar eftir mismundani svæðum heimsins. Hægra megin má sjá samanburð á haldlagningu kókaíns og framleiðslu kókaplöntunnar sem notuð er í kókaín.

Í frétt BBC um skýrsluna kemur fram að glæpagengi hafi í auknu mæli notast við hefðbundnar póstsendingar fyrir kókaín á meðan á faraldrinum stóð og sérstök aukning hafi greinst á þessu í Vesturhluta-Afríku.

Stærstu markaðir kókaínframleiðenda eru enn Norður-Ameríka og Evrópa. Þrátt fyrir aukið umfang kókaínsölu í Afríku og Asíu er það enn talið vera takmarkað en glæpagengi hafa tækifæri á að auka söluna þar.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×