Innlent

Dragi úr notkun einka­bíla og vinni heima vegna loft­mengunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Helstu sjúkdómarnir sem svifryksmengun hefur verið tengd við eru öndunarfærasjúkdómar og hjarta- og æðasjúkdómar. Myndin er úr safni.
Helstu sjúkdómarnir sem svifryksmengun hefur verið tengd við eru öndunarfærasjúkdómar og hjarta- og æðasjúkdómar. Myndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hvetur borgarbúa til þess að draga úr notkun einkabíls og skorar á fyrirtæki að hvetja starfsfólk til að vinna fjarvinnu vegna svifryksmengunar í dag. Styrkur svifryks var hár í morgun og líklegt er að hann hækki aftur í síðdegisumferðinni.

Klukkustundargildi PM10-svifryks við Grensásveg mældist 160 míkrógrömm á rúmmetra klukkan tíu í morgun. Á sama tíma var hann 52,2 míkrógrömm á rúmmetra við leikskólann Lund og 80,8 míkrógrömm á rúmmetra við Vesturbæjarlaug.

Styrkurinn hefur fallið síðan en hægur vindur og þurrar götur þýða að líklegt er að svifryk fari aftur á flug þegar bílaumferð þyngist aftur síðdegis. Gert er ráð fyrir svipuðu veðri næstu daga og því segir heilbrigðiseftirlitið líklegt að svifryksmengun verði áfram mikil.

„Almenningur er því hvattur til þess að draga úr notkun einkabílsins ef unnt er, s.s. geyma ferðir sem ekki eru aðkallandi, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta. Skorað er á fyrirtæki að hvetja starfsfólk til að vinna fjarvinnu sé þess kostur og draga úr akstri ef hægt er. Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum, aldraðir og börn ættu að forðast útivist í lengri tíma og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðagatna,“ segir í tilkynningu frá heilbrigðiseftirlitinu.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.