Fótbolti

Sjáðu mörkin: Bæði fljótastur og yngstur til að skora þrjá­tíu í Meistara­­deild Evrópu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Fimm skoruð í gær og 30 í heildina.
Fimm skoruð í gær og 30 í heildina. EPA-EFE/Adam Vaughan

Erling Braut Håland er svo sannarlega engum líkur. Norski framherjinn hefur nú skorað 30 mörk í Meistaradeild Evrópu, í aðeins 25 leikjum. Það gerir hann fljótasta leikmann sögunnar til að ná þeim áfanga sem og þann yngsta. Mörkin fimm sem Håland skoraði í gær, þriðjudag, má sjá neðst í fréttinni.

Håland sýndi allar sínar bestu hliðar þegar Manchester City niðurlægði RB Leipzig á Etihad-vellinum í Manchester er liðin mættust í síðari viðureign 16-liða úrslita Meistaradeildarinnar í gær, þriðjudag.

Fyrri leiknum lauk með 1-1 jafntefli og var erfitt að sjá úrslit gærdagsins fyrir sér áður en flautað var til leiks. Þegar loks var flautað var til leiksloka var staðan 7-0 Man City í vil. Þar af hafði Håland skorað fimm en hann var tekinn af velli þegar rétt rúm klukkustund var liðin.

Í viðtali eftir leik sagði Norðmaðurinn að hann hefði verið til í að vera áfram inn á til að eiga möguleikann á „tvöfaldri þrennu.“

Mörkin fimm þýða að Håland hefur nú skorað 30 mörk í aðeins 25 Meistaradeildarleikjum. Skoraði hann 8 fyrir Salzburg á sínu fyrsta tímabili í keppninni, 15 fyrir Borussia Dortmund og nú 10 fyrir Manchester City á þessari leiktíð.

Ekki nóg með það heldur er Norðmaðurinn yngsti leikmaður sögunnar til að ná þessum áfanga, það er að skora 30 mörk í deild þeirra bestu í Evrópu. Þegar hann hlóð í fimmu gærdagsins var hann enn aðeins 22 ára og 236 daga gamall.

Eðlilega var Pep Gurdiola, þjálfari Man City, í sjöunda himni með frammistöðu framherjans að leik loknum.

„Erling var stórkostlegur en allir spiluðu frábærlega. Að skora fimm mörk á 60 mínútum, ótrúlegur leikmaður, þvílíkur efniviður. Kraftur, hugarfar, hann er sigurvegari. Frábær,“ sagði Pep á sinn einstaka hátt.

Erling Braut Håland hefur skorað 39 mörk og gefið 5 stoðsendingar í öllum keppnum til þessa á leiktíðinni. Það er í raun aðeins tímaspursmál hvenær hann brýtur 50 marka múrinn.

Klippa: Fimma Erling Haaland á móti Leipzig



Fleiri fréttir

Sjá meira


×