Erlent

Rændi þrettán ára stelpu og læsti í skúr í tvær vikur

Bjarki Sigurðsson skrifar
Jorge Ivan Santos Camacho og skúrinn þar sem stelpan fannst.
Jorge Ivan Santos Camacho og skúrinn þar sem stelpan fannst. Skjáskot/NBC

Karlmaður í Norður-Karólínu fylki í Bandaríkjunum var á föstudaginn handtekinn grunaður um að hafa rænt þrettán ára stelpu, brotið gegn henni kynferðislega og læst hana inni í skúr í tvær vikur. Maðurinn á yfir höfði sér fjölda ákæra fyrir brot sín. 

Jorge Ivan Santos Camacho kynntist þrettán ára gamalli stúlku frá Dallas á internetinu og sannfærði hana um að flýja að heiman til að búa með sér. Hún yfirgaf heimili sitt 1. mars síðastliðinn og sást ekki aftur fyrr en á föstudaginn í síðustu viku. 

Hann hafði flutt stelpuna frá Dallas í Texas til Norður-Karólínu en rúmlega 1.700 kílómetrar eru á milli staðanna. Þegar stúlkan fannst var hún læst inni í skúr á lóð þar sem Camacho bjó og hafði verið nauðgað. 

Rannsóknarlögreglumenn komust á sporið eftir að móðir stúlkunnar gat veitt þeim aðgang að samfélagsmiðlum hennar. Þar fundust skilaboð milli stúlkunnar og Camacho. Það var síðan Alríkislögreglunni sem tókst að finna út hvar hann ætti heima. 

Í samtali við WXII 12 segir konan sem leigði Camacho húsnæði að hana hafi aldrei grunað að hann væri afbrotamaður. 

„Hann bjó með mér í tvö ár, hann sýndi ekki að hann væri svona manneskja svo ég veit ekki ekki hvers vegna hann gerði það,“ segir konan en Camacho bjó ekki í sama húsnæði og konan en á sömu lóð. 

NBC greinir frá því að Camacho eigi von á því að eyða restinni af ævi sinni í fangelsi en hann verður ákærður fyrir að ræna barni, halda barni gegn vilja þess, mansal, nauðgun og fleira. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×