Fótbolti

Hazard fannst hann ekki eiga skilið að spila á HM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eden Hazard náði sér ekki á strik á HM í Katar.
Eden Hazard náði sér ekki á strik á HM í Katar. getty/Michael Steele

Eden Hazard segist hafa verið með hálfgert samviskubit yfir því að hafa spilað á HM í Katar.

Hazard lagði landsliðsskóna á hilluna eftir heimsmeistaramótið þar sem Belgar féllu út í riðlakeppninni. Hann hefur nú greint frá því að honum hafi ekki fundist hann eiga skilið að spila á HM.

„Nýir leikmenn bönkuðu á landsliðsdyrnar. Ég spilaði ekki hjá Real Madrid en kom síðan í landsliðið og spilaði. Ég kunni ekki við það, sérstaklega þar sem nýja kynslóðin átti skilið að spila,“ sagði Hazard í samtali við HLN í Belgíu.

Hann segist ekki hafa tekið ákvörðunina að hætta í landsliðinu vegna lélegs gengis á HM.

„Ég vissi í góðan tíma að ég myndi hætta eftir HM. Frammistaðan í Katar hafði ekki áhrif á ákvörðunina. Auðvitað var leiðinlegt hvernig þetta endaði en ákvörðunin var tekin áður. Það var bara kominn tími til að hætta,“ sagði Hazard.

„Ég hugsaði fyrst um það eftir EM [2021]. Ég gerði mitt besta þá til að vera klár eftir ökklameiðsli. Því miður gat ég ekki spilað gegn Ítalíu í átta liða úrslitunum og það var erfitt að kyngja því.“

Hazard lék 126 landsleiki á árunum 2008-22 og skoraði 33 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×