Innlent

Hæfi biskups ekki tekið til um­ræðu í þriðju lotu kirkju­þings

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Agnes tilkynnti um áramót að hún ætlaði að láta af störfum um mitt næsta ár.
Agnes tilkynnti um áramót að hún ætlaði að láta af störfum um mitt næsta ár. Vísir/Baldur Hrafnkell

Þriðja þinglota kirkjuþings 2022 til 2023 lauk á laugardag en hæfi biskups, sem hefur verið dregið í efa, var ekki til umræðu. Drífa Hjartardóttir, forseti kirkjuþings, segir málið í höndum kjörstjórnar Þjóðkirkjunnar.

Frá þessu greinir Morgunblaðið.

Fjölmiðlar sögðu frá því í janúar síðastliðnum að Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Gunnars Sigurjónssonar, fyrrverandi sóknarprests í Digraneskirkju, hefði sent erindi á Drífu þar sem hún óskaði eftir því að Drífa úrskurðaði um hæfi Agnesar til að taka ákvarðanir um Gunnar.

Gunnar hafði verið látinn fara úr Digranesprestakalli í kjölfar ásakana um einelti og kynferðislega áreitni. 

Auður sagði í erindi sínu að Agnes M. Sigurðardóttir biskup hefði verið skipuð í embætti af forseta Íslands til fimm ára frá og með 1. júlí 2012 en í lok þess skipunartíma hefði skipunartíminn framlengst sjálfkrafa um önnur fimm ár, til 30. júní 2022.

Kirkjuþing breytti reglum um kosningu biskups í fyrra þannig að kjörtímabil hans er nú sex ár en Auður sagði þetta ekki þýða að skipunartíminn framlengdist sjálfkrafa.

Pétur Georg Markan, biskupsritari, sagði í samtali við Vísi í janúar að staða biskups væri lagalega örugg og mögulega væri um að ræða útspil til að afvegaleiða umræðuna.

Morgunblaðið hefur eftir Drífu að tillögu að breyttum starfsreglum um kosningu biskups Íslands og vígslubiskupa hafi verið vísað til löggjafanefndar kirkjuþings.


Tengdar fréttir

Full­yrðingar um hæfi biskups til­raun til að af­vega­leiða um­ræðuna

Lögmaður séra Gunnars Sigurjónssonar, fyrrverandi sóknarprests í Digranesprestakalli, hefur dregið umboð og hæfi biskups í efa og kallað eftir úrskurði forseta kirkjuþings. Biskupsritari gefur lítið fyrir fullyrðingar lögmannsins og segir þær tilraun til að afvegaleiða umræðuna. 

Lög­maður Gunnars dregur í efa að biskup sé biskup

Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Gunnars Sigurjónssonar, fyrrverandi sóknarprests í Digraneskirkju, hefur sent erindi á Drífu Hjartardóttur, forseta kirkjuþings, þar sem hún óskar eftir því að Drífa úrskurði um hæfi biskups til að taka ákvarðanir um Gunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×