Fótbolti

Fjórir stuðnings­menn Betis hand­teknir eftir tapið á Old Traf­ford

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Betis mættu með læti á Old Trafford. Í stúkunni allavega.
Betis mættu með læti á Old Trafford. Í stúkunni allavega. Ash Donelon/Getty Images

Alls mættu um 3600 manns frá Andalúsíu á Spáni til að fylgjast með Real Betis tapa sannfærandi 4-1 gegn Manchester United í 16-liða úrslitum Evrópudeildarinnar í knattspyrnu í gær, fimmtudag. Fjórir þeirra hafa nú verið handteknir.

Þó svo að staðan hafi verið 1-1 í hálfleik á Old Trafford í gær þá má segja að leikmenn Betis hafi aldrei séð til sólar. Lokatölur 4-1 og segja má að gestirnir hafi sloppið ágætlega miðað við hversu mörg færi heimamenn sköpuðu sér. Það virðist ekki hafa verið vel í stuðningsfólk gestanna.

Lögreglumaður meiddist eftir að stuðningsfólk gestanna henti blysum og flugeldum úr stúkunni með þeim afleiðingum að lögreglumaður sem var við störf á leiknum slasaðist.

Lögreglan í Manchester hefur staðfest að fjórir hafi verið handteknir í kjölfarið vegna ofbeldisfullar hegðunar, árásar, vera með blys inn á leikvanginum sem og eiturlyf. Tveir þeirra eru enn í haldi lögreglu. Alls tóku um 50 stuðningsmenn Betis þátt í ólátunum en hinir 3550 höguðu sér sómasamlega.

Rannsókn er enn í gangi og vinnur lögreglan í Englandi nú með báðum félögum sem og spænsku lögreglunni til að komast að því hvort fleiri sökudólgar hafi verið að verki.

Síðari leikur liðanna fer fram þann 16. mars næstkomandi og ljóst er að Betis þarf kraftaverk til að snúa einvíginu sér í hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×