Fótbolti

Stórt skref Sverris Inga og fé­laga í átt að bikar­úr­slitum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Sverrir Ingi var í liði PAOK í dag.
Sverrir Ingi var í liði PAOK í dag. Vísir/Getty

Sverrir Ingi Ingason var í byrjunarliði PAOK sem vann 5-1 stórsigur á Lamia í gríska bikarnum í knattspyrnu í dag.

PAOK hefur verið að berjast við topp grísku deildarinnar í vetur en Lamia á hinum enda töflunnar. PAOK sló út stórlið Panathinaikos í 8-liða úrslitum en leikurinn gegn Lamia í dag var fyrri leikur liðanna í undanúrslitum.

Það var ljóst frá upphafi að gestirnir frá PAOK ætluðu sér sigur í dag. Þeir komust yfir strax á fyrstu mínútu með marki frá Khaled Naray og Giannis Konstantelias kom þeim í 2-0 á 25.mínútu en þannig var staðan þegar flautað var til hálfleiks.

Í síðari hálfleik bættu gestirnir síðan við þremur mörkum á sjö mínútna kafla. Douglas Augusto skoraði þriðja markið á 62.mínútu, Brandon Thomas það fjórða fimm mínútum síðar og Joan Sastre fimmta markið á 69.mínútu.

Lamia klóraði í bakkann í uppbótartíma en lokatölur leiksins voru 5-1 og PAOK því í afar góðri stöðu fyrir síðari leik liðanna í undanúrslitunum.  Sverrir Ingi lék allan leikinn í vörn PAOK.

AEK er í góðri stöðu í hinni viðureigninni eftir 3-0 sigur á Olympiacos í fyrri leik þeirra liða. Síðari leikir undanúrslitanna fara fram 12.-13. apríl. PAOK varð síðast bikarmeistari fyrir tveimur árum og nú búnir að stíga stórt skref í átt að úrslitaleik gríska bikarsins í vor.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×