Erlent

Mótmælendur ruddust inn í þinghús Georgíu

Samúel Karl Ólason skrifar
Lögreglujónar hafa meðal annars beitt stórum vatnsbyssum og táragasi gegn mótmælendum.
Lögreglujónar hafa meðal annars beitt stórum vatnsbyssum og táragasi gegn mótmælendum. AP

Umfangsmikil mótmæli hafa átt sér stað í Tiblisi, höfuðborg Georgíu, í kvöld. Mótmælendur hafa grýtt lögregluþjóna, kastað bensínsprengjum að þeim og reynt að ryðja sér leið inn í þinghúsið. Öryggissveitir hafa meðal annar beitt stórum vatnsbyssum og táragasi gegn mótmælendum.

Mótmælin hófust eftir að nýtt lagafrumvarp stjórnarmeirihlutans fór í gegnum fyrstu umræðu á þingi. Verði frumvarpið að lögum geta yfirvöld Georgíu skilgreint fjölmiðla, samtök og stofnanir sem óæskilega aðila og útsendara annarra ríkja, fái þau meira en tuttugu prósent tekna sinna erlendis frá.

Sambærileg lög hafa verið notuð af yfirvöldum í Rússlandi til að brjóta á bak aftur margs konar mótspyrnu gegn yfirvöldum þar og til að loka sjálfstæðum fjölmiðlum. Mótmælendur og andstæðingar ríkisstjórnarinnar segja frumvarpið skref í átt að alræði í Georgíu.

Þúsundir mótmælenda komu saman í Tiblisi eftir að fyrstu umræðuna um frumvarpið og mótmæla framgöngu þess. Eins og áður segir hefur komið til átaka milli mótmælenda og öryggissveita.

Mótmælendur hafa meðal annars kallað: „Nei við rússneskum lögum!“

Salome Zourabichvili, forseti Georgíu, hefur samkvæmt frétt Reuters, sagt að hún standi með mótmælendum og að hún myndi beita neitunarvaldi sínu gegn frumvarpinu, nái það fram að ganga í þinginu.

Hún er stödd í Bandaríkjunum í opinberri heimsókn en sendi frá sér myndbandsupptöku þar sem hún sagði alla þá sem greiddu atkvæði með frumvarpinu hafa brotið gegn stjórnarskrá Georgíu. Hún sagði mótmælendur standa fyrir frjálsa Georgíu, fyrir Georgíu sem sæi framtíð sína í vestri og myndi ekki leyfa neinum að koma í veg fyrir þessa framtíð.

Þingið getur þó komið frumvörpum í gegnum neitunarvald forsetans og stjórnarmeirihlutinn hefur næg atkvæði til að gera það. Búist er við því að frumvarpið muni fara í gegnum þingið

Forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa varað við því að samþykkt frumvarpsins myndi koma niður á möguleikum Georgíu varðandi inngöngu í sambandið. Bandaríkjamenn hafa sagt svipaða hluti 

Uppfært: Lögreglan er byrjuð að handtaka mótmælendur. Sérsveitir höfðu áður notað táragas til að reka mótmælendur úr þinghúsinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×