Í fréttum okkar í gær sögðum við frá því að manninum hafi verið tilkynnt upp úr miðnætti fyrir um viku síðan búið væri að finna lifur og hann þyrfti því að koma til aðgerðar innan mjög skamms tíma í Svíþjóð. En málið tók fljótlega aðra stefnu og honum og aðstandendum var tilkynnt undir morgun að ekki hefði tekist að manna sjúkraflugvél og því kæmist hann ekki í þessa lífsnauðsynlegu aðgerð í tæka tíð.
Sjúkratryggingar Íslands sjá um samninga vegna sjúkraflutninga og sér flugfélagið Ernir um sjúkraflug til annarra landa en Mýflug um sjúkraflug innanlands. Einnig er samkomulag við Norlandair sem ekki gat flogið þessa nótt og flugvél Landhelgisgæslunnar var ekki á landinu.
Helga Vala Helgadóttir þingmaður Samfylkingarinnar tók málið upp á Alþingi í dag.
„Þetta er staða innviða á Íslandi í dag og öryggismála að flugvél Landhelgisgæslunnar er ekki tæk. Samningar við flugrekstraraðila sem hafa tekið að sér að annast flug milli landa í lífsnauðsynlegar aðgerðir það var ekki hægt að manna þá vél. Ég held að við verðum að gera þá kröfu að ríkisstjórnin sinni störfum sínum fyrir allan almenning hér á landi og tryggi nauðsynlega heilbrigðisþjónustu“
Ekkert samkomulag er við flugfélögin um að áhafnir og flugvélar séu til taks allan sólarhringinn. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir til greina koma að taka upp bakvaktir til að tryggja að flugáhöfn sé alltaf til taks.
„Það er einn þátturinn sem við verðum að horfa inn í og skoða það. Ég hef átt óformlegt samtal við forstjóra Sjúkratrygginga og allir aðilar sem eiga hlut að máli í þessu harma auðvitað atvikið og það sem við verðum að gera núna er að fara yfir atburðarásina og formið og samninginn og með öllum ráðum tryggja að svona alvarlegt atvik eigi sér ekki stað.“