Innlent

„Hafið yfir allan vafa að þing­skapa­rlög eru með mér í liði“

Árni Sæberg og Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifa
Jóhann Páll var ómyrkur í máli þegar rætt var við hann í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Jóhann Páll var ómyrkur í máli þegar rætt var við hann í kvöldfréttum Stöðvar 2. Vísir/Vilhelm

Jóhann Páll Jóhannsson segir niðurstöðu atkvæðagreiðslu, um hvort hann megi leggja fram fyrirspurn um innihald greinargerðar fráfarandi setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol, koma á óvart.

Meirihluti Alþingis hafnaði í dag að leyfa Jóhanni Páli Jóhannssyni, þingmanni Samfylkingarinnar, að leggja fram fyrirspurn um innihald greinargerðar fráfarandi setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol. Þetta er í fyrsta sinn frá 1989 sem álíka atkvæðagreiðsla fer fram. 

Atkvæðagreiðsla fór fram á Alþingi á sjötta tímanum og Jóhanni var synjað um beiðnina með 28 atkvæðum gegn 14.

„Maður veltir því fyrir sér hvað fólk er að fela“

Jóhann Páll segir að hann hafi lagt fram fyrirspurn sem fjallar um greinargerð sem er miðpunktur sérstaks stjórnsýslumáls hjá Alþingi. Það liggi líka fyrir að forsætisnefnd hefur fjallað um málið á þeim forsendum að um sé að ræða hluta af stjórnsýslu Alþingis. Þar segist hann vitna orðrétt í bréf frá forseta Alþingis til Lindarhvols ehf. frá árinu 2021.

Þá hafi forsætisnefnd ákveðið að það eigi að birta skjalið á grundvelli upplýsingalaga þar sem mælt sé fyrir um að stjórnsýsla Alþingis heyri undir gildissvið upplýsingalaga.

„Þannig að ég tel það algerlega hafið yfir allan vafa að fyrirspurn mín samræmist og uppfylli skilyrði þingskapalaga. Þannig að það er mjög alvarlegt að mér hafi verið bannað að spyrja þessara spurninga. Maður veltir því fyrir sér hvað fólk er að fela. Þetta er mjög hættulegt fordæmi sem er verið að setja með því að meina þingmanni að spyrja spurninga sem hann á rétt á því að spyrja samkvæmt þingskapalögum,“ segir Jóhann Páll í samtali við fréttastofu í kvöldfréttum.

Stjórnarliðar hafi hlammað sér á rauða takkann

Atkvæðagreiðslu um málið var fresta í tvígang og Jóhann Páll segir það hafa verið vegna þess að kurr hafi verið í þingmönnum ríkisstjórnarflokkanna þriggja.

„Á endanum fór það hins vegar þannig að stjórnarmeirihlutinn hlammaði sér svoleiðis á rauða takkann og bannaði mér að spyrja þessara spurninga og það er bara mjögmiður. Ég tel að hér sé verið að setja mjög hættulegt fordæmi og í raun verið að misbeita valdi, það er bara þannig,“ segir hann.

Að lokum segir Jóhann Páll að málalyktir séu vonbrigði fyrir sig persónulega en að Alþingi hafi einnig beðið álithnekki vegna þeirra. „Ég hef áhyggjur af þeim skilaboðum sem felast í þessu.“


Tengdar fréttir

Fær ekki að spyrja um Lindar­hvol

Meirihluti Alþingis hafnaði í dag að leyfa Jóhanni Páli Jóhannssyni þingmanni Samfylkingarinnar að leggja fram fyrirspurn um innihald greinargerðar fráfarandi setts ríkisendurskoðanda um Lindarhvol. Þetta er í fyrsta sinn frá 1989 sem álíka atkvæðagreiðsla fer fram.

„Vona að hann leiðrétti mistökin áður en atkvæðagreiðslan fer fram“

Alþingi mun í dag skera úr um hvort tveir þingmenn stjórnarandstöðunnar fái að leggja fram fyrirspurnir um stafsemi ríkisendurskoðunar í máli Lindarhvols. Annar þeirra segir forseta þingsins hafa gert mistök með því að hafna framlagningu fyrirspurnarinnar og hann hljóti að sjá að sér áður en atkvæðagreiðslan fer fram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×