Erlent

Andrew Tate blæs á krabba­meins­orð­róm

Bjarki Sigurðsson skrifar
Andrew Tate segist ekki vera með krabbamein líkt og blaðamaðurinn Sulaiman Ahmed hélt fram á Twitter í vikunni.
Andrew Tate segist ekki vera með krabbamein líkt og blaðamaðurinn Sulaiman Ahmed hélt fram á Twitter í vikunni. Getty/Alex Nicodim

Samfélagsmiðlastjarnan Andrew Tate segist ekki vera með krabbamein líkt og sögur sem ganga um á samfélagsmiðlum hafa kveðið um. Hann segist í raun vera með heilsu á við íþróttamann á Ólympíuleikunum. 

Fyrrverandi bardagakappinn og samfélagsmiðlastjarnan Andrew Tate situr nú í gæsluvarðhaldi í Rúmeníu vegna gruns um mansal og nauðganir. 

Í vikunni birti blaðamaðurinn Sulaiman Ahmed gögn á Twitter sem hann sagði að væru heilsufarsupplýsingar Tate. Um er að ræða bréf sem læknir Tate á að hafa sent yfirvöldum í Rúmeníu til þess að fá honum sleppt úr haldi. 

Í bréfinu er læknirinn sagður staðfesta að Tate sé með krabbamein í lungunum. Krabbameinið hafi greinst um miðjan desember á síðasta ári eftir að Tate fór nokkrum sinnum til læknisins í Dúbaí. 

Á meðan Tate situr inni er hann með fólk í vinnu við að sjá um sína samfélagsmiðla. Hann miðlar til þeirra upplýsingum sem þau birta síðan á samfélagsmiðlum, oftast á Twitter. 

Í nærri færslu á Twitter-síðu Tate blæs hann á þennan krabbameinsorðróm. Hann sé ekki með neitt krabbamein heldur sé hann við hestaheilsu. Hann sé meira að segja með heilsu á við íþróttamann sem keppir á Ólympíuleikunum. 

„Sem einn af áhrifamestu mönnum Jarðarinnar er mikilvægt fyrir mannkynið að ég lifi eins lengi og hægt er. Eins og styrkur minn er núna geri ég ráð fyrir því að ég lifi í að minnsta kosti fimm þúsund ár í viðbót,“ segir Tate.

Hann viðurkennir að hafa hitt lækni í Dúbaí en það hafi einungis verið til þess að athuga hvort heilsan hafi verið í lagi. Læknarnir hafi þó áhuga á ör sem Tate er með á lunganu en hann hefur ekki útskýrt hvaðan það kom. 



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×