Fótbolti

Bayern endurheimti toppsætið

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Eric Maxim Choupo-Moting skoraði seinna mark Bayern í kvöld.
Eric Maxim Choupo-Moting skoraði seinna mark Bayern í kvöld. Vísir/Getty

Þýskalandsmeistarar Bayern München lyftu sér aftur á topp þýsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta er liðið vann 2-1 útisigur gegn Stuttgart í kvöld. Þá virðist Union Berlin vera að stimpla sig út úr toppbaráttunni, en liðið þurfti að sætta sig við markalaust jafntefli gegn Köln á sama tíma.

Það voru þeir Matthijs De Ligt og Eric Maxim Choupo-Moting sem sáu um markaskorun Bayern í kvöld áður en varamaðurinn Juan Jose Perea minnkaði muninn fyrir heimamenn stuttu fyrir leikslok. 

Með sigrinum stökk Bayern upp fyrir Dortmund á topp þýsku úrvalsdeildarinnar. Liðin eru jöfn að stigum með 49 stig hvort eftir 23 leiki, en Bayern er með mun betri markatölu.

Þá þurftu bæði Union Berlin og Freiburg að sætta sig við markalaus jafntefli í kvöld, en liðin voru bæði lengi vel í harðri baráttu við Bayern og Dortmund á toppi deildarinnar. Union Berlin er hins vegar fimm stigum á eftir toppliðunum tveim í þriðja sæti eftir leiki kvöldsins og Freiburg situr í fimmta sæti, sjö stigum á eftir Bayern og Dortmund.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×