Fótbolti

Val­geir Lund­dal í átta liða úr­slit

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kristoffer Lund Hansen og Valgeir Lunddal Friðriksson glaðbeittir með gullhjálmana eftir að Häcken varð sænskur meistari á síðustu leiktíð.
Kristoffer Lund Hansen og Valgeir Lunddal Friðriksson glaðbeittir með gullhjálmana eftir að Häcken varð sænskur meistari á síðustu leiktíð. Rudy Alvardo

Valgeir Lunddal Friðriksson lék allan leikinn er sænsku meistararnir í Häcken tryggðu sér sæti í 8-liða úrslitum sænsku bikarkeppninnar í knattspyrnu. Íslendingalið Örebro og Sirius eru hins vegar fallin úr leik.

Sænski bikarinn, sem leikinn er áður en deildarkeppnin hefst, fer þannig fram að það eru átta riðlar með fjórum liðum hvert. Leikin er einföld umferð og efsta lið hvers riðils fer áfram í 8-liða úrslit.

Benie Traore skoraði bæði mörk Häcken í 2-1 sigri á Halmstad í dag. Sænsku meistararnir fara því í 8-liða úrslitin með fullt hús stiga. Íslendingliðin Sirius og Örebro eru hins vegar úr leik eftir leiki dagsins.

Sirius tapaði 3-2 fyrir Mjällby. Óli Valur Ómarsson var í byrjunarliði Sirius en Aron Bjarnason var fjarri vegna meiðsla. Leikurinn var hreinn úrslitaleikur um sæti í 8-liða úrslitum og Sirius því úr leik.

Axel Óskar Andrésson hóf leik Örebro og Landskrona í miðverði heimaliðsins. Valgeir Valgeirsson var hins vegar fjarri góðu gamni í dag. Það kom ekki að sök þar sem Örebro vann þægilegan 2-0 sigur.

Riðlakeppninni lýkur á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×