Vægðar­laust lið Man City lagði New­cast­le

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Phil Foden fagnar marki sínu.
Phil Foden fagnar marki sínu. EPA-EFE/ADAM VAUGHAN

Englandsmeistarar Manchester City lögðu Newcastle United 2-0 í fyrsta leik helgarinnar í ensku úrvalsdeildinni. Segja má að Man City hafi verið vægðarlaust en liðið átti þrjú skot á markið í leik dagsins, tvö þeirra enduðu í netinu.

Newcastle tapaði um síðustu helgi fyrir Manchester United í úrslitum enska deildarbikarsins. Tapið virðist sitja örlítið í gestunum sem voru lentir undir þegar stundarfjórðungur var liðinn af leik dagsins.

Rodri fann Phil Foden út á hægri vængnum og sá síðarnefndi var ekkert að tvínóna við hlutina. Foden tók á rás í átt að marki, fór framhjá hverjum varnarmanni Newcastle á fætur öðrum áður en hann átti skot sem fór af Sven Botman og í netið. Óverjandi fyrir Nick Pope, markvörð Newcastle, og staðan orðin 1-0.

Þrátt fyrir að gestirnir hafi fengið fín færi þá tókst þeim ekki að skila knettinum í netið og á 65. mínútu kom Bernardo Silva inn af bekknum. Aðeins tveimur mínútum síðar flikkaði Erling Braut Håland boltanum á Silva sem skoraði með skoti í fyrsta úr D-boganum.

Heimamenn komnir í 2-0 og reyndust það lokatölur dagsins. Sigurinn minnkar forskot Arsenal á toppi deildarinnar niður í tvö stig en Skytturnar eiga þó leik til góða. Þær mæta Bournemouth síðar í dag. Þangað til þeim leik er lokið er Arsenal á toppnum með 60 stig og Man City í 2. sæti með 58 stig. Newcastle er í 5. sæti með 41 stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira