Fótbolti

Klinsmann tekur við Suður-Kóreu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jürgen Klinsmann er kominn með nýtt starf.
Jürgen Klinsmann er kominn með nýtt starf. getty/Mark Metcalfe

Þýska fótboltagoðið Jürgen Klinsmann hefur verið ráðinn þjálfari suður-kóreska karlalandsliðsins.

Klinsmann tekur við Suður-Kóreu af Paulo Bento sem hætti eftir HM í Katar þar sem liðið komst í sextán liða úrslit.

Samningur Klinsmanns við suður-kóreska knattspyrnusambandið gildir fram yfir HM í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó 2026.

Suður-Kórea er þriðja landsliðið sem Klinsmann þjálfar. Hann stýrði Þýskalandi á árunum 2004-06 og Bandaríkjunum 2011-16. Undir hans stjórn lentu Þjóðverjar í 3. sæti á HM á heimavelli 2006 og Bandaríkjamenn komust í sextán liða úrslit á HM 2014. Klinsmann hefur einnig þjálfað Bayern München og Herthu Berlin.

Klinsmann lék 108 leiki og skoraði 47 mörk fyrir þýska landsliðið á árunum 1987-98. Hann varð heimsmeistari með Vestur-Þýskalandi 1990 og Evrópumeistari með Þýskalandi 1996.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×