Eldurinn kviknaði í verslun í timburhúsi í miðborg Kragerø um klukkan 20:00 að staðartíma í gærkvöldi, að sögn norska ríkisútvarpsins NRK. Þaðan bárust logarnir í aðra og þriðju hæð sama húss og tvö önnur nærliggjandi hús. Óttast var að eldurinn læsti sig í enn fleiri timuburhús í hverfinu.
Um fimmtíu íbúum í nágrenninu var sagt að yfirgefa heimili sín vegna hættunnar. Hús í fimm hundruð metra radíus í kringum brunann voru rýmd. Um tuttugu manns fengu gistingu í fjöldahjálparstöð sem borgaryfirvöld komu upp.
Á bilinu sjötíu til áttatíu slökkviliðsmenn frá Kragerø og nágrannabæjum börðust við eldinn. Morten Meen Gallefoss, slökkviliðsstjórinn, sagði slökkvistarfið erfitt í gærkvöldi. Eldurinn hafi verið ákafur og þétt byggðin hafi gert slökkviliðsmönnum erfitt um vik að hafa stjórn á honum.
Á áttunda tímanum í morgun hafði slökkvilið náð yfirhöndinni og lýst hættuna á meiriháttar eldsvoða úr sögunni. Fréttakona NRK segir að gröfur hafi verið notaðar til þess að rífa hluta bygginganna sem brunnu. Reykur lá þá yfir allri miðborginni.