Fótbolti

Ronaldo nálgast markahæstu menn eftir aðra þrennu sína

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Ronaldo fagnar í dag.
Ronaldo fagnar í dag. vísir/Getty

Cristiano Ronaldo skoraði öll mörk Al Nassr í 0-3 sigri á Damac í Sádi Arabíu í dag.

Ronaldo opnaði markareikninginn með marki úr vítaspyrnu áður en hann skoraði tvö mörk úr opnum leik en öll mörkin voru skoruð í fyrri hálfleik.

Portúgalski markahrókurinn náði ekki að skora í fyrstu tveimur leikjum sínum í Sádi Arabíu en hefur síðan skorað átta mörk í síðustu fimm leikjum og er raunar orðinn líklegur í baráttunni um markakóng deildarinnar.

Liðsfélagi Ronaldo, hinn brasilíski Talisca, er markahæsti leikmaður deildarinnar með þrettán mörk en Ronaldo er kominn í fjórða sæti yfir markahæstu leikmenn með sín átta mörk; jafnmörg mörk og annar fyrrum leikmaður Man Utd, Odion Ighalo.

Tólf leikir eru eftir af deildarkeppninni í Sádi Arabíu og má ætla að hinn metnaðarfulli Ronaldo ætli sér markakóngstitilinn.

Þrenna kappans í dag var þrenna númer 62 á ferlinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×