Innlent

Gerir ráð fyrir að stefna Eflingu fyrir Félagsdóm á morgun

Ólafur Björn Sverrisson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. vísir/egill

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, gerir ráð fyrir því að stefna stéttarfélaginu Eflingu fyrir Félagsdóm á morgun þar sem Efling hefur ekki boðað næstu verkfallsaðgerðir með réttum hætti. 

Þetta sagði Halldór Benjamín í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2. Skömmu fyrr var tilkynnt að fyrirtæki innan SA hefðu samþykkt verkbann á félagsmenn Eflingar með um 94 prósent greiddra atkvæða. Það hefst að óbreyttu 2. mars og munu þá rúmlega 20 þúsund félagsmenn stéttarfélagsins ekki sækja vinnu, fá greidd laun eða önnur réttindi á meðan banninu stendur.

„Ég lít á þetta sem algjöra nauðvörn í þessari hörðu kjaradeilu og lít svo á að við séum með þessu að bera hönd fyrir höfuð okkar og okkar félagsmenn,“ segir Halldór Benjamín. 

Viðtalið við hann hefst þegar rúmar þrjár mínútur eru liðnar af fréttinni:

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, tilkynnti í dag að beðið verði með að tilkynna um næstu verkfallsaðgerðir þar til niðurstaða um verkbann SA liggi fyrir. Verkfallsboðun félagsmanna Eflingar í öryggisgæslu, hjá ræstingarfyrirtækjum og hótelstarfsfólks, sem til stóð að hefjist 28. febrúar, barst ekki ríkissáttasemjara og SA með lögbundnum sjö daga fyrirvara.

Halldór var spurður hvort SA þurfi að ráðast í verkbann í ljósi þess að Efling hafi ákveðið að fresta næstu verkfallsboðun.

„Þau hafa ekki ákveðið að fresta boðun, þau einfaldlega boðuðu þessi verkföll með röngum hætti. Þau hafa ekki afhent Samtökum atvinnulífsins og ríkissáttasemjara þau gögn sem eru tilskilin og ef þau halda sig við þessa lagatúlkun þá geri ég ráð fyrir að við munum stefna þeim fyrir félagsdóm strax á morgun,“ sagði Halldór Benjamín að lokum. 


Tengdar fréttir

Segja næstu verk­falls­boðun Eflingar ekki koma til fram­kvæmda

Samtök atvinnulífsins segja Eflingu ekki hafa staðið rétt að verkfallsboðun og samtökunum hafi ekki borist tilkynning um verkfallið sem hefði átt að hefjast 28. febrúar. Verkfallið hafi ekki verið boðað með lögbundnum sjö sólarhringa fyrirvara og komi því ekki til framkvæmda. 

Efling ákvað að bíða með næstu verkfallsboðun

Formaður Eflingar segir að ákveðið hafi verið að bíða með að tilkynna um næstu verkfallsaðgerðir þar til niðurstöður liggi fyrir hjá Samtökum atvinnulífsins um verkbann gagnvart  félagsmönnum Eflingar. Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×