Innlent

Segja næstu verk­falls­boðun Eflingar ekki koma til fram­kvæmda

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA. Vísir/Vilhelm

Samtök atvinnulífsins segja Eflingu ekki hafa staðið rétt að verkfallsboðun og samtökunum hafi ekki borist tilkynning um verkfallið sem hefði átt að hefjast 28. febrúar. Verkfallið hafi ekki verið boðað með lögbundnum sjö sólarhringa fyrirvara og komi því ekki til framkvæmda. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá SA sem samtökin sendu á félagsmenn sína og fjölmiðla rétt í þessu. Tikynninguna í heild má sjá neðst í fréttinni.

Vísað er til sextándu greinar laga um stéttarfélög og vinnudeilur en þar segir: 

Ákvörðun um vinnustöðvun, sem hefja á í þeim tilgangi að knýja fram breytingu eða ákvörðun um kaup og kjör, ber að tilkynna sáttasemjara og þeim, sem hún beinist aðallega gegn, 7 sólarhringum áður en tilætlunin er að hún hefjist.

Efling tilkynnti um niðurstöðu atkvæðagreiðslu um verkfallsboðunina á heimasíðu sinni þann 20. febrúar. 

Elísabet S. Ólafsdóttir aðstoðarríkissáttasemjari staðfestir í samtali við Vísi að verkfallsboðun hafi ekki borist skrifstofu ríkissáttasemjara. Ljós sé að lögum hafi þar ekki verið fylgt, enda kveði þau á um að tilkynna sáttasemjara og þeim, sem vinnustöðvun beinist aðallega gegn, sjö sólarhringum áður en ætlunin er að hún hefjist.

Áformuð verkföll Eflingar í ræstingu, öryggisgæslu og á hótelum munu ekki koma til framkvæmda 28. febrúar eins og boðað hafði verið. Engin tilkynning hefur borist Samtökum atvinnulífsins með verkfallsboðun og því er héðan af ekki hægt að boða verkfallið með lögbundnum sjö sólarhringa fyrirvara.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×