Fótbolti

Napoli með tveggja marka forskot fyrir heimaleikinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Victor Osimhen skoraði fyrra mark Napoli í kvöld.
Victor Osimhen skoraði fyrra mark Napoli í kvöld. Jonathan Moscrop/Getty Images

Napoli vann sterkan 2-0 útisigur er liðið heimsótti Frankfurt í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í fótbolta í kvöld.

Khvicha Kvaratskhelia fékk tækifæri til að koma ítölsku gestunum í forystu af vítapuntkinum eftir að Aurelio Buta braut á Victor Osimhen innan vítateigs á 35. mínútu leiksins. Hann lét þó Kevin Trapp verja frá sér og staðan enn markalaus.

Osimhen kom liðsfélaga sínum þó til bjargar fjórum mínútum síðar þegar hann kom boltanum í netið eftir stoðsendingu frá Hirving Lozano og staðan var 1-0, Napoli í vil, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Heimamenn lentu svo í vandræðum eftir tæplega klukkutíma leik þegar þeirra helsti markaskorari, Randal Kolo Muani, lét reka sig af velli með beint rautt spjald.

Gestirnir nýttu sér liðsmuninn örfáum mínútum síðar með marki frá Giovanni Di Lorenzo eftir stoðsendingu frá Khvicha Kvaratskhelia og þar við sat.

Niðurstaðan því 2-0 sigur Napoli sem er nú í góðri stöðu fyrir seinni leik liðanna sem fer fram á þeirra heimavelli þann 15. mars næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×