Erlent

Xi sagður hyggja á ferð til Moskvu

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín og Xi Jinping, forseta Rússlands og Kína, þann 4. febrúar í fyrra, nokkrum vikum fyrir innrás Rússa í Úkraínu.
Vladimír Pútín og Xi Jinping, forseta Rússlands og Kína, þann 4. febrúar í fyrra, nokkrum vikum fyrir innrás Rússa í Úkraínu. AP/Alexei Druzhinin

Xi Jinping, forseti Kína, er að undirbúa ferð til Moskvu þar sem hann mun funda með Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Þessi ferð á að eiga sér stað á næstu mánuðum en ráðamenn á Vesturlöndum hafa áhyggjur af því að Kínverjar ætli að aðstoða Rússa með því að veita þeim hergögn.

Í frétt Wall Street Journal (áskriftarvefur) um væntanlega ferð Xi, segir að Kínverjar taka virkan þátt í að binda enda á átökin og segja heimildarmenn miðilsins að Xi vilji hvetja Pútín til friðarviðræðna og ítreka að ekki eigi að nota kjarnorkuvopn í átökunum.

Samkvæmt heimildum WSJ liggur ekki fyrir hvenær af heimsókninni verður en líklegast verður það í apríl eða snemma í maí.

Ráðamenn í Kína hafa aldrei fordæmt innrás Rússa í Úkraínu né markvissar árásir þeirra á óbreytta borgara né ódæði rússneskra hermanna gegn borgurum. Þá hafa Kínverjar gagnrýnt refsiaðgerðir gegn Rússum og sagt að Rússum hafi verið ögrað.

Sjá einnig: Aukinn stuðningur Kína við Rússa yrði dýru verði keyptur

Talsmenn utanríkisráðuneytis Kína hafa kennt Bandaríkjunum um innrás Rússa í Úkraínu og gagnrýnt vopna- og hergagnasendingar til Úkraínu.

Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, sagði um helgina að ríkisstjórn Kína myndi birta skjal í vikunni þar sem staða ríkisins gagnvart átökunum í Úkraínu yrði tíunduð. Dmytro Kuleba, utanríkisráðherra Úkraínu, sagðist í dag hafa rætt við Wang og heyrt lykilatriði þessa skjals. og áherslna Kínverja. Kuleba sagðist vilja sjá skjalið áður en hann tjáði sig um það.

Hann sagði þó að heilindi landamæra Úkraínu væru mikilvæg.

Sjá einnig: Ítrekar að Úkraínumenn munu ekki gefa eftir land fyrir frið

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði á sunnudaginn að Kínverjar væru á opinberum vettvangi að kalla eftir friði í Úkraínu. Á hinn bóginn væri ríkið að veita Rússum aðstoð. Hann sagði þá aðstoð ekki í formi hergagna en óttaðist að það myndi breytast.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×