Innlent

Fylgi ríkis­stjórnar­flokkanna ekki minna á kjör­tíma­bilinu

Kjartan Kjartansson skrifar
Ríkisstjórnin mætir töluverðum mótbyr en stuðningur við hana hefur ekki mælist minni á kjörtímabilinu en nú.
Ríkisstjórnin mætir töluverðum mótbyr en stuðningur við hana hefur ekki mælist minni á kjörtímabilinu en nú. Vísir/Vilhelm

Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna þriggja mælist nú rétt um 39 prósent og hefur ekki verið minna á kjörtímabilinu. Ekki er marktækur munur á fylgi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar í nýrri skoðanakönnun Maskínu.

Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 20,1 prósent, 1,7 stigum minna en í síðustu könnun í janúar. Framsóknarflokkurinn er með 12,3 prósent og hefur fylgið verið óbreytt í síðustu þremur könnunum. Fylgi Vinstri grænna mælist nú 6,7 prósent og dregst saman um 1,6 stig frá því síðast.

Sé miðað við þingkosningar árið 2021 hefur fylgi Vinstri grænna nærri því helmingast, Sjálfstæðisflokksins minnkað um rúm fjögur prósentustig og Framsóknarflokksins um fimm stig.

Samanlagt fylgi stjórnarflokkanna er 39,1 prósent en stjórnarandstöðunnar 60,9 prósent.

Samfylkingin mælist stærsti flokkurinn í könnuninni með 23,3 prósent. Munurinn á fylgi flokksins og Sjálfstæðisflokksins er hins vegar innan vikmarka könnunarinnar og því ekki marktækur. Fylgi Samfylkingarinnar hefur aukist mikið frá því í kosningunum fyrir rúmu ári. Það hefur mælst yfir tuttugu stigum frá því í desember.

Píratar eru stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, á eftir Samfylkingunni, með 12,7 prósent fylgi. Viðreisn mælist með 8,2 stig, Flokkur fólksins 5,9 prósent, Miðflokkurinn 5,8 prósent og Sósíalistaflokkurinn fimm prósent.

Könnunin fór fram dagana 3. til 13. febrúar og tóku 1.892 svarendur afstöðu til flokkanna. Svarendur eru svonefndur þjóðhópur fólks sem er dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og var könnunin lögð fyrir á netinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×