Erlent

Fundu lík þar sem Bulley hvarf

Máni Snær Þorláksson skrifar
Lögreglan í Lancashire fann lík í ánni í dag.
Lögreglan í Lancashire fann lík í ánni í dag. Lögreglan í Lancashire/Getty

Í kringum hádegi í dag fann lögreglan í Lancashire lík í ánni Wyre. Áin er í nágrenni við síðustu þekktu staðsetningu Nicola Bulley, tveggja barna móður á fimmtugsaldri, sem hvarf sporlaust þann 27. janúar síðastliðinn.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá lögreglunni. Ekki er búið að bera kennsl á líkið og því er ekki hægt að segja til um hvort lík Bulley sé að ræða.

Lögreglan segir að verið sé að vinna í því að bera kennsl á líkið. Búið er að gera fjölskyldu Bulley viðvart um þróun mála. „Hugur okkar er hjá þeim á þessum erfiðu tímum,“ segir í yfirlýsingu lögreglunnar.

Fyrr í dag lokaði lögregla vegi og göngustíg við ánna. Þyrla frá lögreglunni flaug yfir svæðið í tæpan hálftíma í leit að Bulley. Þá var einnig notaður dróni við leitina. 

Síðast sást til Bulley í grennd við ánna klukkan níu að morgni þann 27. janúar. Einungis um 25 mínútum eftir að það sást til hennar fannst síminn hennar á bekk við árbakkann. Þá var ólin og taumurinn af hundinum á jörðinni við hliðina á bekknum. Skömmu áður en hún hvarf sporlaust hafði hún skráð sig inn á Teams-fund í símanum. Hún var enn skráð á fundinn þegar síminn fannst.

Lögreglan gagnrýnd fyrir að deila viðkvæmum persónuupplýsingum

Síðastliðinn miðvikudag hélt lögreglan blaðamannafund í tengslum við leitina að Bulley. Lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að deila viðkvæmum persónuupplýsingum um móðurina á fundinum. Þar kom fram að hún ætti við áfengismál að stríða og væri komin með snemmbúin tíðahvörf.

Penny Mordaunt, forseti neðri deildar breska þingsins, er á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt lögregluna fyrir þetta. „Það fyrsta sem ég hugsaði um var fjölskyldan hennar. Það er nógu erfitt þegar ástvinur týnist,“ sagði Mordaunt á BBC í dag.


Tengdar fréttir

Hvarf spor­laust en síminn og hunda­taumurinn urðu eftir

Lögreglan í Bretlandi leitar enn lifandi ljósi að tveggja barna móður á fimmtugsaldri sem hvarf sporlaust fyrir rúmum tveimur vikum. Síðast sást til hennar þegar hún fór út að ganga með hundinn sinn við Wyre ána 27. janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×