Fótbolti

Atsu fannst látinn í rústum

Árni Sæberg skrifar
Christian Atsu er látinn.
Christian Atsu er látinn. Serena Taylor/Getty

Ganverski knattspyrnumaðurinn Christian Atsu hefur fundist látinn í rústum heimilis síns í Tyrklandi. Hans hafði verið saknað frá því að jarðskjálfti skók stóran hluta Tyrklands og Sýrlands þann 6. febrúar síðastliðinn. 

„Það er með sorg í hjarta að ég þarf að tilkynna öllum þeim sem sent hafa velfarnaðaróskir að því miður hafi lík Christians Atsu fundist í morgun,“ segir í tilkynningu frá Nana Sechere, umboðsmanni Atsus. Sky Sports greinir frá.

Hún færir fjölskyldu hans og ástvinum dýpstu samúðarkveðjur og óskar þess að friðhelgi þeirra verði virt. Þá þakkar hún öllum þeim sem beðið hafa fyrir Atsu og veitt stuðning.

Daginn eftir jarðskjálftann mikla ver greint frá því að Atsu hefði fundist á lífi í rústum. Mustafa Özat, talsmaður Hatayspor, viðurkenndi skömmu síðast að hafa verið með rangar upplýsingar þegar hann ræddi við fjölmiðla og sagði að Atsu hefði fundist á lífi.

Atsu, sem er 31 árs gamall, lék með Hatayspor sem er í borginni Kahramanmaras í Tyrklandi.

Chelsea keypti Atsu frá Porto 2013. Hann lék aldrei leik fyrir aðallið Chelsea en var lánaður víða, meðal annars til Newcastle sem keypti hann svo 2017. Atsu lék 86 leiki fyrir Newcastle og skoraði þrjú mörk. Hann yfirgaf Newcastle 2021 og gekk þá í raðir Al-Raed í Sádí-Arabíu. Atsu hefur leikið 65 landsleiki fyrir Gana og skorað níu mörk.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.