Manchester City komið á toppinn eftir úti­sigur í toppslagnum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Markaskorarar City í kvöld, Erling Haaland, Jack Grealish og Kevin De Bruyne fagna marki þess síðasnefnda í kvöld.
Markaskorarar City í kvöld, Erling Haaland, Jack Grealish og Kevin De Bruyne fagna marki þess síðasnefnda í kvöld. Vísir/Getty

Manchester City er komið á topp ensku úrvalsdeildarinnar eftir 3-1 sigur á Arsenal í toppslag í kvöld. Þetta er þriðji deildarleikurinn í röð hjá Arsenal án sigurs.

Leikurinn var skemmtilegur strax í upphafi enda mikið í húfi. Bæði lið höfðu átt sínar sóknir og Eddi Nketiah fékk gott færi þegar hann skallaði framhjá úr góðu færi.

Fyrsta markið kom á 24.mínútu. Takehiro Tomiyasu átti þá skelfilega sendingu til baka á Aaron Ramsdale í marki Arsenal, Kevin De Bruyne komst á milli og kláraði með því að lyfta boltanum snyrtilega yfir Ramsdale

Arsenal spýtti hins vegar vel í lófana í kjölfar marksins. Ederson fékk gult spjald fyrir að tefja leikinn strax á 32.mínútu sem telst til tíðinda. Skömmu fyrir hálfleik náði Arsenal að jafna metin.

Anthony Taylor hafði í nógu að snúast í kvöld en dæmdi leikinn vel.Vísir/Getty

Eddiie Nketiah komst þá inn í teiginn og náði skoti að marki en Nathan Ake náði að bjarga á marklínu. Ederson gáði hins vegar ekki að sér þegar hann fór út á móti Nketiah og keyrði hann niður eftir að Arsenalmaðurinn náði skotinu á marki. Klaufalegt hjá Ederson og Anthony Taylor dæmdi víti.

Á punktinn steig Bukayo Saka og hann var öryggið uppmálað þrátt fyrir að Ederson hafi gert sitt besta í markin til að setja hann úr jafnvægi. Staðan orðin 1-1 og þannig var hún í leikhléi.

Baráttan hélt áfram í síðari hálfleik. Taylor dæmdi víti til City þegar Gabriel varnarmaður Arsenal togaði Erling Haaland niður í teignum. Haaland var hins vegar rangstæður þegar sendingin kom og vítaspyrnan því dregin til baka.

Á 72.mínútu komst City síðan yfir á ný. Jack Grealish skoraði þá með góðu skoti eftir að Haaland komst inn í teiginn og boltinn barst til Grealish.

Jack Grealish fagnar marki sínu í kvöld.Vísir/Getty

Normaðurinn ógurlegi kláraði síðan leikinn átta mínútum fyrir leikslok. Arsenal hafði þá pressað mínúturnar á undan en City náði góðri sókn, spiluðu Kevin De Bruyne frían í teignum og hann fann Haaland sem kláraði vel.

Arsenal reyndi að minnka muninn á síðustu mínútunum en það gekk ekki. Manchester City fagnaði að lokum 3-1 sigri og er nú jafnt Arsenal á toppi ensku úrvalsdeildarinnar en Arsenal á leik til góða.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira