Innlent

Ást­ráður settur ríkis­sátta­semjari í deilu SA og Eflingar

Vésteinn Örn Pétursson og Kjartan Kjartansson skrifa
Ástráður er þegar kominn í leyfi frá dómarastörfum.
Ástráður er þegar kominn í leyfi frá dómarastörfum. Ríkissáttasemjari

Ástráður Haraldsson héraðsdómari hefur verið settur ríkissáttasemjari í vinnudeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Í gær tilkynnti Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari að hann myndi segja sig frá deilunni.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að stjórn dómstólasýslunnar hafi samþykkt að veita Ástráði leyfi frá störfum sínum við Héraðsdóm Reykjavíkur. Leyfið er þegar hafið.

Sérstaklega er tekið fram í tilkynningunni að Aðalsteinn gegni enn embætti ríkissáttasemjara og að störf Ástráðs snúi eingöngu að deilu Eflingar og SA.

Í samtali við Vísi sagðist Ástráður rétt að átta sig á hlutunum enda væri hann nýkominn með skipunarbréfið í hendurnar. Hann bjóst þó við að ákveðið yrði mjög fljótlega hvenær fulltrúar deiluaðila yrðu kallaðir til fundar.

Vék í gær

Efling hefur ítrekað gert kröfu um að Aðalsteinn viki sæti í deilunni, eftir að hann setti fram miðlunartillögu í deilu félagsins við SA.

Aðalsteinn varð við því í gær eftir að Landsréttur sneri við úrskurði héraðsdóms um hvort Eflingu væri skylt að afhenda kjörskrá sína, svo félagsmenn gætu greitt atkvæði um tillöguna. Ríkissáttasemjari hafði gert samkomulag við Eflingu um að úrskurðinum yrði ekki skotið til Hæstaréttar.

Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari.Vísir/Arnar

Tengdar fréttir

Trúir því ekki að verði úr verk­fallinu

Forstjóri Icelandair segist ekki hafa trú á því að verkfall olíuflutningabílstjóra dragist á langinn. Þetta sagði hann ítrekað í viðtali við fréttastofu nú síðdegis. Að óbreyttu hefst ótímabundið verkfall olíuflutningabílstjóra í Eflingu klukkan tólf á hádegi á morgun. 

Flestir vantreysta Eflingu samkvæmt nýrri könnun

Helmingur landsmanna telur fulltrúa Eflingar hafa staðið sig illa í yfirstandandi kjaradeilu. Þar munar mestu um kjósendur Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks auk þeirra sem hæst laun hafa í landinu.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×