Hlín sem er uppalin Valskona og enn bara 22 ára gömul, hafði spilað í tvö tímabil með Piteå IF. Hlín var mikið meidd fyrra tímabilið en sýndi styrk sinn síðasta sumar með því að verða markahæsti íslenski leikmaðurinn í sænsku deildinni með ellefu mörk.
Elísabet fékk löndu sína til að koma suður til Kristianstad og hún er strax farin að minna á sig.
Hlín opnaði markareikning sinn með Kristianstad um helgina þegar liðið vann 2-1 sigur á danska liðinu HB Köge í æfingarleik.
Elísabet stillti upp tveimur íslenskum stelpum í þriggja manna sóknarlínu sinni og þær voru fljótar að búa til mark.
Hlín skoraði fyrsta mark leiksins á fimmtu mínútu eftir að hafa fengið óeigingjarna sendingu frá hinni sextán ára gömlu Emelíu Óskarsdóttur.
Það má sjá þessa íslensku samvinnu hér fyrir neðan.