Innlent

Fólk komi ekki frá Venesúela til að nýta vel­ferðar­kerfið

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Arndís segir ekkert benda til þess að fólk komi frá Venesúela til þess að misnota sér velferðarkerfið.
Arndís segir ekkert benda til þess að fólk komi frá Venesúela til þess að misnota sér velferðarkerfið. Vísir/Steingrímur Dúi

Ekkert bendir til þess að fólk frá Venesúela komi til Íslands þess að misnota velferðarkerfið í stórum stíl segir þingkona Pírata. Það hryggi hana að menn ýti undir fordóma með slíkum málflutningi. Myndband frá ferðaskrifstofu í Venesúela lofar fólki sem fer til Íslands öllu fögru. 

Myndbandið frá ferðaskrifstofunni Air Viejo hefur vakið talsverða athygli en í því dásama tvær konur Ísland og þá möguleika sem eru fyrir hendi ef fólk kemur hingað. Meðal annars er talað um há lágmarkslaun og gótt bótakerfi.

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í samtali við fréttastofu í dag að það væri hreint ótrúlega bíræfið af ferðaskrifstofunni að auglýsa misnotkun á íslensku velferðarkerfi.

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir segir ekkert nýtt koma fram í myndbandinu.

„Við vitum það að það eru alltaf alls konar flökkusögur í gangi bæði um Ísland og önnur ríki. Ísland er ekkert sér á báti þar. Við sjáum það til dæmis að það er ekki rétt eins og kemur fram í þessu broti að hér séu lágmarkslaun 500-850 þúsund. Við vitum að það er ekki rétt og heldur engir dagpeningar umfram það sem gengur og gerist í öðrum löndum.“

Hún segir ekkert benda til þess að fólk sé sérstaklega að koma frá Venesúela til þess að nýta sér velferðarkerfin.

„Bara þvert á móti. Ef eitthvað er þá er fólk kannski bara að sækjast eftir tækifærum og okkur vantar fólk. En ég verð að fá að bæta því við að það er auðvitað hryggilegt að menn séu að notfæra sér svona flökkusögur sem eru alltaf í gangi til þess að ýta undir andúð gegn fólki sem er að leita hingað til þess að öðlast almennilegt líf, öruggt líf.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×