Fótbolti

Sveindís til Parísar og Bayern mætir Arsenal

Sindri Sverrisson skrifar
Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur í Wolfsburg eiga afar erfitt verkefni fyrir höndum.
Sveindís Jane Jónsdóttir og stöllur í Wolfsburg eiga afar erfitt verkefni fyrir höndum. Getty

Þrjú Íslendingalið voru í pottinum þegar dregið var í 8-liða og undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í fótbolta kvenna í dag.

Sveindís Jane Jónsdóttir og Berglind Björg Þorvaldsdóttir gætu mæst í einvígi PSG og Wolfsburg sem mætast í 8-liða úrslitunum. Berglind hefur þó lítið sem ekkert spilað fyrir PSG.

Íslendingarnir í Bayern München, þær Glódís Perla Viggósdóttir, Karólína Lea Vilhjálmsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir, drógust hins vegar gegn Arsenal. 

Í hinum tveimur einvígjunum í 8-liða úrslitum mætast annars vegar Barcelona og Roma, sem er á sinni fyrstu leiktíð í Evrópukeppni og komið alla leið í 8-liða úrslit, og hins vegar Evrópumeistarar Lyon og Chelsea.

Það er jafnframt ljóst að komist Bayern áfram í undanúrslit verður um slag Íslendingaliða að ræða þar, því sigurliðið úr viðureign PSG og Wolfsburg mætir Bayern eða Arsenal.

Leikirnir í 8-liða úrslitum fara fram 21./22. mars og 29./30. mars en undanúrslitin eru í seinni hluta apríl. Úrslitaleikurinn er í Eindhoven 3. júní.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×