Innlent

Fylgjast vel með Öskju

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Myndin er tekin yfir Öskju í gær.
Myndin er tekin yfir Öskju í gær. Háskóli Íslands

Vakir í ís Öskjuvatns eru afbrigðilega stórar. Rannsóknarstofa í eldfjallafræði og náttúruvá segir vert að fylgjast vel með.

Árið 2012 mældist mikill jarðhiti á borð vatnsins í Öskju og gat myndaðist vegna bráðnunar íss. Mælingar eftir skriðuföll árið 2014 sýndu að dregið hafði úr jarðhita frá árum áður. Nú er öldin önnur. Myndir frá gervihnetti ESA sýna að vakir í ís Öskjuvatns séu afbrigðilega stórar.

„Í framhaldi tókum við saman myndir frá Sentinel tunglinu hjá ESA. Við náum með góðu móti aftur til ársins 2016. Á þessu 8 ára tímabili kemur skírt fram að vakirnar sem komu fram í gær eru stórar og geta bara verið útskýrðar með auknum jarðhita í vatninu. Það er í takt við þau ummerki sem mælst hafa, landris og skjálftar. Það er því vert að vera vel vakandi hvað Öskju varðar þessa dagana,“ segir í stöðuuppfærslu rannsóknarstofunnar, sem er á vegum Háskóla Íslands.

Birt er ný mynd sem tekin var 25. janúar á þessu ári þar sem fram kemur að í eðlilegu ástandi verði vökin minnki smám saman fram í apríl. Af myndunum megi ráða að innslagið hafi átt sér stað á tímabilinu 25. janúar til 8. febrúar á þessu ári.

GPS mælingar í janúar sýndu að land í Öskju hafi risið um hálfan metra frá því að mælingar hófust fyrir tæpum tólf árum síðan. Landrisið er talið vera vegna kvikusöfnunar á litlu dýpi í eldstöðinni. Þann 9. september 2021 lýstu Almannavarnir yfir óvissustigi vegna landriss í Öskju og er það enn í gildi. Þá mældist landrisið rúmir sjö sentímetrar á nokkrum vikum og þótti það mikið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×