Enski boltinn

Segir Gakpo mögulega hafa farið of snemma til Liverpool

Sindri Sverrisson skrifar
Cody Gakpo hefur átt erfitt uppdráttar hjá Liverpool.
Cody Gakpo hefur átt erfitt uppdráttar hjá Liverpool. Getty/Marc Atkins

Hollenski landsliðsmaðurinn Cody Gakpo hefur ekki náð að fylgja eftir frábæru heimsmeistaramóti hjá sínu nýja liði Liverpool. Nýr landsliðsþjálfari hans, Ronald Koeman, segir Gakpo mögulega hafa farið of snemma í ensku úrvalsdeildina.

Gakpo, sem er 23 ára gamall, kom til Liverpool frá PSV Eindhoven í síðasta mánuði og hefur verið í byrjunarliðinu í sex leikjum, án þess að skora mark. Óhætt er að segja að honum gangi illa að heilla stuðningsmenn Liverpool og liðið er komið niður í 10. sæti deildarinnar.

Koeman segir að það sé gott að hafa unga, hollenska leikmenn í bestu deildunum en að það sé líka erfitt fyrir þá.

„Getustigið í Englandi er hærra en í Hollandi en þetta eru líka ungir strákar, ekki satt? Eins og [Ryan] Gravenberch sem fór til Bayern og er ekki að spila. Þá er þetta erfitt,“ sagði Koeman í Youtube-þætti Andy van der Meyde, samkvæmt frétt Reuters.

Koeman sagði það ekki hjálpa Gakpo hve illa gengi hjá Liverpool á þessari leiktíð.

„Maður sér það alveg að hann endaði hjá liði sem gengur ekki svo vel. Þá verður þetta erfiðara fyrir hann, sem nýkeyptan leikmann. Maður er strax prófaður. Og ef maður skorar ekki eða er ekki mikilvægur, og maður vinnur ekki leiki, þá er þetta mjög erfitt, sérstaklega fyrir unga leikmenn. Ef að þetta væri 28 ára leikmaður með reynslu þá væri þetta annað mál,“ sagði Koeman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×