Fótbolti

Maðurinn sem leiddi Króata til bronsverðlauna á HM 1998 látinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Miroslav Blazevic var litríkur persónuleiki.
Miroslav Blazevic var litríkur persónuleiki. getty/Mark Thompson

Miroslav Blazevic, sem stýrði króatíska landsliðinu til bronsverðlauna á HM 1998, er látinn eftir baráttu við krabbamein. Hann var 87 ára.

Blazevic tók við króatíska landsliðinu 1994, nokkrum árum eftir að landið fékk sjálfstæði. Undir hans stjórn varð Króatía fljótlega eitt sterkasta lið heims.

Króatar komust í átta liða úrslit á EM 1996, á sínu fyrsta stórmóti sem sjálfstæð þjóð. Á HM tveimur árum seinna gerði Króatía enn betur og vann til bronsverðlauna. Meðal aðalmannanna í liðinu má nefna Davor Suker, sem var markahæstur á HM, Zvonimir Boban og Robert Prosinecki.

Þjálfaraferill Blazevic hófst 1968 og lauk ekki fyrr en 2015. Hann kom víða við og þjálfaði um allan heim, meðal annars í Grikklandi, Frakklandi, Íran, Sviss og Kína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×