Innlent

Skora á Eflingu að fresta og á­skilja sér rétt til bóta­krafna

Árni Sæberg skrifar
Halldór Benjamín varð fyrir vonbrigðum í Félagsdómi í dag en ekki Héraðsdómi Reykjavíkur.
Halldór Benjamín varð fyrir vonbrigðum í Félagsdómi í dag en ekki Héraðsdómi Reykjavíkur. Stöð 2/Egill

Samtök atvinnulífsins hafa skorað á Eflingu að fresta vinnustöðvun, sem félagið hefur boðað á morgun. Þá segir að samtökin áskilji aðildarfélögum sínum bótarétt vegna alls tjóns sem af ólögmætum aðgerðum Eflingar kunni að hljótast.

Þetta kemur fram í bréfi Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra SA, til Eflingar og Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns hennar.

Í bréfinu segir að ekki megi skilja dóm Félagsdóms, sem kvað á um að boðuð vinnustöðvun Eflingar væri ekki ólögmæt, á annan veg en að hann taki undir réttmætar kröfur ríkissáttasemjara um afhendingu kjörskrár og að um ólögmæta vanrækslu af hálfu Eflingar sé að ræða.

Héraðsdómur úrskurðaði í dag að aðfarargerð væri heimil til þess að fá félagatal Eflingar afhent. Sólveig Anna hefur hins vegar tilkynnt að Efling muni ekki afhenda félagatalið fyrr en úrskurður Landsréttar liggur fyrir í málinu, þrátt fyrir að héraðsdómur hafi neitað kröfu Eflingar um að réttaráhrifum úrskurðar hans  yrði frestað.

Harma afstöðu Eflingar

Í bréfinu segir að ætlan Eflingar virðist sú ein að valda aðildarfyrirtækjum SA tjóni, án þess að það sé liður í yfirstandandi kjaraviðræðum eða vinnudeilu, enda bíði miðlunartillaga sáttasemjara atkvæðagreiðslu. Fyrst ef miðlunartillagan verður felld skapist skilyrði fyrir verkföllum sem þrýstingi á viðsemjanda.

„Samtök atvinnulífsins harma og mótmæla afstöðu Eflingar og skora á félagið af fresta boðaðri vinnustöðvun þar til niðurstaða atkvæðagreiðslu liggur fyrir. SA áskilja aðildarfyrirtækjum samtakanna bótarétt vegna alls tjóns sem af ólögmætum aðgerðum Eflingar kann að hljótast,“ segir í lok bréfsins.

Bréfið má lesa í heild sinni hér.


Tengdar fréttir

„Ég neita að trúa því að Efling fylgi ekki lögum“

Ríkissáttasemjari segir úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur ákaflega skýran um það að miðlunartillaga hans í deilu Eflingar og SA hafi verið löglega fram sett og að Eflingu beri að framvísa félagatali.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.