Innlent

Þóra Arnórs­dóttir hættir hjá RÚV

Atli Ísleifsson og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Þóra Arnórsdóttir.
Þóra Arnórsdóttir. RÚV

Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri fréttaskýringaþáttarins Kveiks hjá Ríkisútvarpinu, hefur sagt upp störfum hjá Ríkisutvarpinu. Hún segist skilja sátt eftir 25 ára starf í fjölmiðlum og ætlar í annan bransa sem þó er leyndarmál fyrst um sinn.

Þóra segist í samtali við Vísi reikna með að taka nokkra daga í að ganga frá í Efstaleiti. Það taki tíma þegar maður hafi verið á svæðinu í 25 ár, með einhverjum hléum þó.

„Ég hætti strax sem ritstjóri Kveiks. Um leið og þú ert farinn að vinna annars staðar þá er það eðlilegt í starfi eins og mínu,“ segir Þóra. Ingólfur Bjarni Sigfússon tekur við sem ritstjóri Kveiks af Þóru.

Aðspurð hvað taki við vill Þóra ekki upplýsa um það að svo stöddu. Hún segist þó kveðja fjölmiðla í bili.

„Ég er búin að vera í 25 ára í útvarpi, sjónvarpi, gert heimildarþætti, fréttaskýringaþætti, kosningaþætti og skemmtiþætti. Ég hef tekið á móti fleiri Eddum en flestir sjónvarpsmenn. Ég get alveg verið sátt við þennan aldarfjórðung.“

Hún segist mjög spennt fyrir því að halda inn á annan vettvang og mæti þeim verkefnum sem bíða hennar af auðmýkt.

Kveikur var fyrst á dagskrá Ríkissjónvarpsins haustið 2017 og og hefur Þóra gegnt ritstjórastöðunni frá upphafi, ef frá er talið tímabil 2019 til 2020. Á árum áður var Þóra í hópi umsjónarmanna spurningaþáttarins Útsvars sem var á dagskrá RÚV á árunum 2007 til 2017. Hún bauð sig fram til forseta lýðveldisins árið 2012.

Aðspurð hvort hún hyggi nokkuð á annað framboð hlær hún og greinilegt á henni að Guðni Th. Jóhannesson þurfi ekki að hafa áhyggjur af mótframboði á næsta ári, að minnsta kosti ekki frá henni.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×