Fótbolti

„Gat ekki staðið í lappirnar og var mjög hrædd“

Sindri Sverrisson skrifar
Birkir Bjarnason og Sophie Gordon kærasta hans búa saman í Adana þar sem mikil eyðilegging varð af völdum jarðskjálftans í nótt. Tala látinna og slasaðra heldur áfram að hækka.
Birkir Bjarnason og Sophie Gordon kærasta hans búa saman í Adana þar sem mikil eyðilegging varð af völdum jarðskjálftans í nótt. Tala látinna og slasaðra heldur áfram að hækka. @gordonsophie/Getty

„Þetta er skelfilegt,“ segir Birkir Bjarnason, leikjahæsti landsliðsmaður Íslands í fótbolta, sem býr ásamt kærustu sinni í Tyrklandi þar sem risastór jarðskjálfti reið yfir í nótt og hefur orðið fjölda fólks að bana.

Birkir býr ásamt kærustu sinni, Sophie Gordon, í Adana sem er rétt um 200 kílómetrum frá upptökum skjálftans sem var að stærð 7,8. Til samanburðar er talið að stærsti jarðskjálfti á Íslandi hafi verið 7,1 að stærð.

Hundruð hafa látist og þúsundir slasast vegna skjálftans en Birkir og liðsfélagar hans í Adana Demirspor voru staðsettir í Istanbúl í nótt vegna leiks sem þeir áttu að spila í dag, sem nú hefur verið frestað líkt og öðrum íþróttaviðburðum í Tyrklandi. Bíða leikmenn þess nú að komast heim til fjölskyldu og vina.

Skelkaður þegar hann vaknaði og sá skilaboðin

„Við erum í Istanbúl og fundum ekkert hér en Sophie kærastan mín er í Adana og vaknaði við skjálftann. Upptökin eru mjög nálægt og hún gat ekki staðið í lappirnar og var mjög hrædd þegar skjálftinn reið yfir,“ segir Birkir í samtali við Vísi.

„Ég vaknaði ekki þegar hún hringdi en vaknaði svo klukkutíma seinna, klukkan fimm, og sá að hún hafði hringt og sent mér SMS. Ég varð því auðvitað frekar stressaður þangað til ég náði í hana. Hún var mjög hrædd enda var skjálftinn upp á 7,8 sem er alveg svakalegt,“ segir Birkir.

Birkir lét ættingja og vini vita af því á Facebook að hann væri óhultur eftir jarðskjálftann mikla.

Byggingar í Adana hafa hrunið til grunna vegna skjálftans eins og sjá má á myndskeiðinu hér að neðan.

Birkir og liðsfélagar hans fljúga í dag heim til Adana til að hitta sitt fólk. „Það voru allir vakandi í nótt,“ segir Birkir sem kveðst ekki vita til þess að neinn í liðinu hafi misst einhvern nákominn en hafði heyrt að skyldmenni einhverra úr starfsliði liðsins hefðu mögulega slasast.

„En þetta er svo nýskeð að maður veit ekki mikið um þetta. Hugur manns er að sjálfsögðu hjá þeim sem hafa lent í þessum skjálfta, og eiga fjölskyldu eða vini sem er verið að leita að. Maður vonar bara að þetta sé minna en maður heldur en mér skilst að þetta sé sterkasti skjálfti sem mælst hefur hérna,“ segir Birkir.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×