Innlent

Lík­legt að tvö hundruð svín hafi drepist í elds­voða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Slökkviliðsmenn nutu liðsinnis kranabíls til þess að rjúfa þak svínabúsins.
Slökkviliðsmenn nutu liðsinnis kranabíls til þess að rjúfa þak svínabúsins. Mynd/Brunavarnir Austur-Húnvetninga

Allt tiltækt lið Brunavarna Austur-Húnvetninga var kallað í morgun vegna elds í svínabúi við Skriðuland í Langadal. Talið er að rúmlega tvö hundruð svín hafi drepist í brunanum en þó er útlit fyrir að tekist hafi að bjarga fimm til sex hundruð svínum.

Það var um klukkan sex í morgun sem útkallið barst að sögn Ingvars Sigurðssonar, slökkviliðsstjóra Brunavarna Austur-Húnvetninga.

„Það var eldur hérna í þaki á einum þriðja svínabúsins þegar við komum. Við fórum í að vernda hina tvo þriðju helmingana af húsalengjunni. Mjög líklega um tvö hundruð dýr dauð í þessum einum þriðja en það eru fimm til sex hundruð í hinum hlutanum þannig að við fórum bara í að verja og það hefur tekist,“ segir Ingvar.

Eldurinn kom upp við Skriðuland í Langadal.

Eldvarnarveggur virðist hafa náð að tefja útbreiðslu eldsins og segir Ingvar að við hann hafi slökkviliðsmönnum tekist að stöðva útbreiðsluna. Brunavarnir Austur-Húnvetninga njóta aðstoðar Brunavarna Skagafjarðar sem lögðu til tankbíl og körfubíl, sem auðveldaði slökkvistörf.

„Nú erum við að rjúfa þak til þess að það sé ekki að rjúka upp eldur hér aftur en við erum löngu búin að ná tökum á þessu, “ segir Ingvar sem telur líklegt að rekja megi eldsupptök til einhvers konar vélabúnaðar við þak svínabúsins. Lögreglan á Norðurlandi vestra mun þó rannsaka eldsupptök.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.