Enski boltinn

Lýsir Guar­diola sem klikkaða prófessornum

Sindri Sverrisson skrifar
Pep Guardiola hefur tekið umdeildar ákvarðanir að undanförnu.
Pep Guardiola hefur tekið umdeildar ákvarðanir að undanförnu. Getty/John Walton

Chris Sutton veltir fyrir sér í pistli í Daily Mail hvað Pep Guardiola, knattspyrnustjóra Manchester City, gangi hreinlega til með umdeildum ákvörðunum sínum að undanförnu.

City tapaði 1-0 fyrir Tottenham í gær og náði því ekki að nýta tækifærið til að minnka fimm stiga forskot Arsenal á toppi ensku úrvalsdeildarinnar, eftir tap Arsenal gegn Everton.

Sutton lýsir Guardiola sem „klikkaða prófessornum“ í pistli sínum og nefnir ástæður þess að þessi afskaplega sigursæli knattspyrnustjóri líti núna út sem slíkur.

„Að senda Joao Cancelo að láni til Bayern München? Brjálæði. Að taka Kevin De Bruyne út úr liðinu fyrir leik þar sem þú þarft sigur til að minnka forskot Arsenal í tvö stig? Brjálæði.

Að biðja hinn 18 ára gamla Rico Lewis um að vera alltaf að taka við boltanum til að snúa, með pressandi leikmenn Tottenham eins og hrægamma? Brjálæði. Og þetta leiddi til sigurmarks Harry Kane á Tottenham-leikvanginum,“ skrifaði Sutton, sem á sínum tíma varð Englandsmeistari með Blackburn.

Það þótti afar óvænt að Guardiola skyldi vilja losna við Cancelo í janúarglugganum enda var bakvörðurinn lykilmaður í síðustu tveimur Englandsmeistaratitlum. Og besti leikmaður City að flestra mati, De Bruyne, var á bekknum í gær af taktískum ástæðum, að sögn Guardiola.

„Pep Guardiola er að reyna sitt besta til að líta út eins og klikkaði prófessoerinn með ákvörðunum sínum og, sem stendur, þá eru þær ekki að gera Manchester City neitt gott. Liðið hans er ekki með sömu yfirburði og við höfum séð í gegnum tíðina,“ skrifar Sutton og veltir fyrir sér hvað í ósköpunum hafi gengið á, á milli Cancelo og Guardiola sem leitt hafi til þess að Cancelo fór til Bayern.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×