Innlent

Vilja vita meira um skólpið

Sigurður Orri Kristjánsson skrifar
Herdís segist sátt við aðstöðuna en hefði jafnvel viljað sjá glugga.
Herdís segist sátt við aðstöðuna en hefði jafnvel viljað sjá glugga. Vísir/Arnar

Sjósundsfólk fagnar nýrri skiptiaðstöðu við Ægisíðu í Vesturbænum en kallar eftir ítarlegri upplýsingum um vatnsgæði í rauntíma þar sem skólphreinsistöð stendur þar skammt frá.

Uppbygging aðstöðunnar við Ægissíðu hefur gengið vel en hún hófst eftir að hugmynd að aðstöðunni barst í gegnum verkefnið hverfið mitt sem Reykjavíkurborg stendur fyrir. Skúrinn er óðum að taka á sig mynd.

Herdís Anna Þorvaldsdóttir, formaður sjósundsfélags Reykjavíkur fagnar aðstöðunni.

„Við hjá SJÓR voru mjög hamingjusöm með störf borgarinnar þar. Það var gott samráð við okkur og þetta kemur bara mjög vel út.“

Herdís heldur áfram. 

„Það munar mjög miklu að fötin séu þurr og fjúki ekki í burtu. Það snýst bara aðallega um það. Það þarf ekkert meir. Þetta er bara mjög svipað því sem að við vorum að tala um að þyrfti. Við hefðum kannski viljað hafa glugga svo þetta yrði ekki notað í eitthvað sem ekki má sjást.“

Sá böggull fylgir þó skammrifi að aðstaðan er í einungis um 500 metra fjarlægð frá skólpdælustöð við Faxaskjól. Það kemur fyrir að slíkar stöðvar ráði ekki við álagið sem fylgir miklum vatnavöxtum og skólp fari þá óhreinsað út í sjó með tilheyrandi gerlamengun.

En hefur sjósundsfólk áhyggjur af nábýlinu við skolpdælustöðvar?

„Já, við höfum mikið gagnrýnt það bara hvernig frárennslismálum er háttað og líka upplýsingagjöf um stöðuna á frárennslismálunum. Við getum séð inná veitusjánni hvort að lokar séu opnir eða ekki, en við myndum gjarnan vilja miklu ítarlegri upplýsingar og að upplýsingagjöfin væri aðgengilegri.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×