Bobi, sem er af tegundinni Rafeiro do Alentejo er orðinn þrítugur en meðalaldur slíkra hunda er tólf til fjórtán ár. Metið sem Bobi hefur nú slegið hefur staðið í rúm hundrað ár, en elsti hundur sögunnar, áður en Bobi var krýndur meistari var ástralski hundurinn Bluey sem varð 29 ára og fimm mánaða.
Stóð til að lóga Bobi
Blue kvaddi þennan heim hinsvegar árið 1939. Bobi fékk metið sitt skráð þann fyrsta febrúar síðastliðinn þegar hann hafði náð þrjátíu árum og 226 dögum. Eigandi hans segir að hann sé við hestaheilsu, miðað við aldur og fyrri störf en hann hefur verið hjá sömu fjölskyldu á vesturströnd Portúgals frá fæðingu. Raunar stóð til að lóga honum eins og öðrum úr gotinu þegar hann fæddist en börnin á heimilinu gripu þá til þess ráðs að fela hvolpinn og þegar upp komst var ákveðið að hann fengi að lifa.
Étur ekki hundamat
Hann segir að Bobi hafi ávallt borðað það sama og fjölskyldan leggi sér til munns og að hann fúlsi við hundamat úr dós. Líklegt er talið að langlífið sé genatengt, því móðir hans náði átján ára aldri.